Fjöldi manns í Laxárdalnum
Gríðarlegur mannfjöldi var samankominn í Laxárdalnum s.l. laugardag þegar hrossum var smalað í Skrapatungurétt en þetta var í 20. skiptið sem hin skipulagða dagskrá Ævintýrið Skrapatungurétt fer fram.
Talnagleggstu menn vilja meina að minnsta kosti um 300 manns hafi verið á hestbaki í dalnum og um 700 hross sem komu til réttar. Að venju var áð í Kirkjuskarðsrétt þar sem söngurinn ómaði fjallshlíða á milli áður en stóðið var rekið síðasta spölinn í Skrapatungurétt en á sunnudeginum var það gengið sundur.
Samkvæmt Lögreglunni á Blönduósi var helgin ósköp góð enda góðir gestir sem fylltu allar sveitir og umferð gekk mjög vel. Þann skugga bar á annars góða helgi að ein líkamsáras var kærð til lögreglunnar eftir réttardansleik þar sem Papar héldu uppi fjöri fram á nótt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.