Fjölmennum á Sauðárkróksvöll í kvöld!
Það er ekki laust við að nokkur spenna ríki á Norðurlandi vestra en í kvöld berjast bræður á grænu gerviengi Sauðárkróksvallar þegar lið Tindastóls tekur á móti grönnum sínum úr Húnavatnssýslunni í undanúrslitum Fótboltapunkturnet-bikarsins. Vonir standa til þess að stuðningsmenn liðanna fjölmenni á völlinn og styðji sitt lið fallega.
Leikurinn hefst kl. 19:15 á flóðlýstum velli. Miðasala er á Stubb en einnig við vallarhúsið. Sjóðheitir hamborgarar verða í boði á vellinum og stuðningsmenn Tindastóls og aðrir áhugasamir geta fjárfest í Tindastólshúfum. Svölustu stuðningsmennirnir vilja væntanlega hita upp fyrir leikinn og á Sauðá hefst happy hour / gleðistund kl. 17 fyrir stuðningsmenn Stólanna. Húnvetningar ætla að hita upp á Kaffi Krók en þar verður boltabjór í boði og hefst veislan þar sömuleiðis kl. 17:00.
Öflug dómarateymi verða á leikjunum í undanúrslitum keppninnar en á Króknum verður það Sveinn Arnarson sem mun stjórna umferðinni með flautu og spjöld en honum til aðstoðar verða Patrik Freyr Guðmundsson og Eðvarð Eðvarðsson. Eftirlitsmaður KSÍ á leiknum verður Magnús Sigurður Sigurólason þannig að þetta er fullorðins.
Veðurguðirnir virðast telja ástæðu til að kæla menn aðeins niður og skrúfa því að mestu fyrir hitann og verða með sprinklerinn á kantinum. Semsagt; spáð 3-4 stiga hita, norðanátt og möguleika á lítils háttar rigningu. Liðin munu væntanlega sjá um að halda hita á stuðningsmönnum sínum með góðri baráttu og linnulausum snilldartöktum meðan á leik stendur.
Koma svo – megi betra liðið vinna og Norðurland vestra hanga saman!