Fjölmennur fundur landbúnaðarráðherra með sauðfjárbændum
Fundur Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, með sauðfjárbændum á Norðurlandi vestra var haldinn í Víðihlíð þann 15. þ.m. og var hann vel sóttur. Á fundinn mættu einnig Haraldur Benediktsson alþingismaður, sem veitti samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga formennsku og Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis og nýkjörinn formaður samninganefndar um endurskoðun sauðfjársamningsins.
Á fundinum fóru Kristján Þór og Haraldur yfir skýrslu samráðshópsins og útlistuðu atriði skýrslunnar og tillögur samráðshópsins. Sköpuðust líflegar umræður og komu fundarmenn fram með athugasemdir gagnvart skýrslunni, sem og málefnum sauðfjárræktarinnar er varða afurðaverð. Frá þessu segir í nýjasta tölublaði Bændablaðsins sem kemur út í dag.
Meðal þess sem fram kom í máli fundarmanna var sú skoðun að það ætti ekki að vera hlutverk sauðfjársamnings að halda uppi byggðastefnu í landinu. Málefni afurðastöðva voru mönnum hugleikin og einnig var sú hugmynd viðruð hvort endurvekja ætti útflutningsskyldu á hluta afurðanna.
Umfjöllun Bændablaðsins um fundinn má sjá hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.