Fjórir ættliðir í sama kirkjukór

Það gerist líklega ekki á hverjum degi að fjórir ættliðir syngi í sama kórnum en sú er nú raunin í Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd. Nýlega gekk til liðs við kórinn ung stúlka, Sóley Sif Jónsdóttir, sem er aðeins tíu ára gömul. Í kórnum syngja einnig langamma hennar, Guðrún Sigurðardóttir, amma hennar, Hallbjörg Jónsdóttir og föðursystir hennar, Jenný Lind Sigurjónsdóttir.
Það er trúlega ekki á hverjum degi sem eins ungt fólk og Sóley gengur í kirkjukór en móðir hennar, Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, sem er stjórnandi kórsins og organisti, segir að Sóley hafi beðið lengi eftir því að fá leyfi til að vera með enda hafi hún frá fæðingu hlustað á móður sína æfa sig heima. Hún sé því orðin nokkuð vel að sér í sálmum kirkjuársins. Hugrún segir að í báðum ættum Sóleyjar sé mikið söngfólk og hafi ömmur hennar, langömmur, langafar og fjöldi skyldfólks sungið í kirkjukórum. Til gamans má geta þess að Guðrún, langamma Sóleyjar, á þrjú systkin í kórnum.
Kirkjukór Hólaneskirkju heldur úti öflugu starfi, heldur jólatónleika, hefur farið í söngferð til Kanada, haldið jazz- og poppmessur, staðið fyrir námskeiðum og fleira. Um jólin flytur kórinn hátíðarsöngva séra Bjarna Þorsteinssonar í tveimur hátíðarguðsþjónustum, í Hólaneskirkju á aðfangadag og í Hofskirkju á jóladag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.