Fleiri húnvetnskar ár að opna
feykir.is
Austur-Húnavatnssýsla, Vestur-Húnavatnssýsla
21.06.2017
kl. 12.21
Laxveiði er nú hafin í Laxá á Ásum sem og í Vatnsdals- og Víðidalsá og fer vel af stað.
Í Laxá á Ásum hófst veiði á sunnudagsmorgun og var það Freyja Kjartansdóttir sem féll fyrsta laxinn í Stekkjarstreng. Fyrsta daginn veiddust 19 laxar og var sá stærsti 93 cm. Á Facebooksíðu árinnar segir að laxinn sé dreifður um alla á og margir vænir laxar séu í Langahyl. Árin 2013-2015 veiddust yfir 1000 laxar í ánni en veiðin í fyrra var 620 laxar.
Í Vatnsdalsá hófst veiðin í síðdegis í gær og veiddust þá fjórir laxar, sá stærsti um 99 cm langur en allir voru fiskarnir vænir. Víðidalsá skilaði 15 löxum á morgunvaktinni og var sá stærsti 94 cm langur.