„Flottasti bjórbar landsins“

Microbar and Bed á Sauðárkróki er lofaður í hástert í umfjöllun um barinn á vefnum Vinotek.is. „Bjórúrval staðarins er magnað. Á honum eru fjórar dælur þar sem sveitungar og ferðamenn geta gætt sér á Gæðingum Árna. Flöskuúrvalið er veglegt og afar vel valið,“ segir m.a. um barinn. 

Á vefnum segir að það kunni að hljóma ótrúlega að einn flottasti bar landsins sé í yfir 100 ár gömlu húsi við Aðalgötu á Sauðárkróki. Það hýsti apótek hér á árum áður en hefur nú fengið endurnýjun lífdaga.

„Barinn hefur mikla hlýju og mikið hefur verið lagt til að gera hann heimilislegan og fallegan. Innréttingar eru hlýjar og fallegar. Á barnum mætir nýi tíminn þeim gamla og útkoman er einn flottasti bar landsins. Sumt hefur fylgt húsinu í gegnum árin, annað er fengið frá sveitungum og það nýjasta smíðað á staðnum. Það má með sanni segja að húsið og barinn hafi sinn eigin karakter.“

Einnig er rætt um vinsældir Microbars í Reykjavík þar sem fullt er út úr dyrum öll kvöld. „Reyndar má segja að MicroBar hafi mótað bjórlandslagið í Reykjavík síðustu ár og orðið þess valdandi að bjórar frá íslenskum ör-brugghúsum seljast nú eins og heitar lummur,“ er á meðal þess sem sagt er um barinn.

„Microbar And Bed er dásamleg viðbót í bjórflóru landsins og ástæða út af fyrir sig til að leggja land undir fót og njóta góðra veiga á flottum bar á einum af fegurstu stöðum landsins,“ segir loks á vefnum.

Hér má sjá umfjöllunina í heild sinni.

Fleiri fréttir