FNV útskrifar 53 nemendur - Myndir

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í 35. sinn laugardaginn 24. maí að viðstöddu fjölmenni. Alls brautskráðust 53 nemendur. Þar með er tala brautskráðra nemenda frá skólanum komin í 2201.

Í máli skólameistara kom m.a. fram hve mikilvægu hlutverki skólinn gegnir fyrir menntun á framhaldsskólastigi á Norðurlandi vestra. Á síðastliðnu skólaári voru t.d. 38% nemenda ekki á hefðbundnum framhaldsskólaaldri, þ.e. 16 til 20 ára og elsti nemandi skólans var fæddur árið 1943.

Skólinn hefur átt farsælt samstarf við atvinnulífið og sveitarfélög og leitast við að bjóða upp á námsbrautir sem unnar eru í samráði við hagsmunaaðila í atvinnulífinu auk þess að jafna framboð á kynbundnu námsvali. Má þar nefna nám í hársnyrtiiðn, kvikmyndanám, nám á nýsköpunar- og tæknibraut, nám í slátraraiðn, nám á fistæknibraut og nám í plastiðnum. Að auki er skólinn aðili að Fjarmenntaskólanum þar sem boðið er upp á fjarnám og lotubundið nám til að auðvelda nemendum að stunda nám með vinnu.

Að lokum minntist skólameistari tveggja nemenda skólans, þeirra Önnu Jónu Sigurbjörnsdóttur og Skarphéðins Andra Kristjánssonar, sem létust af völdum bílslyss sem átti sér stað þann 12. janúar s.l.

Í vetrarannál skólans, sem Ásbjörn Karlsson, áfangastjóri, flutti kom m.a. fram að nemendur á haustönn voru 488, en 496 á vorönn. Alls hafa 550 nemendur sótt skólann á þessu skólaári. Nemendur í fjarnámi voru 107. Hér er um fjölgun að ræða frá fyrri árum. Ánægjulegt er að brottfall hefur minnkað úr 9,2% fyrir fimm árum síðan í 4,6% í ár. Meðal nýjunga má nefna að dreifnámi var komið á fót á Hólmavík og Blönduósi til viðbótar við Hvammstanga.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara og deildarstjóra skólans. Alls brautskráðust 53 nemendur frá skólanum. Þar af 31 nemandi með stúdentspróf, 6 nemendur úr húsasmíði og byggingareinum, 7 nemendur úr rafiðna- og bílgreinadeild, 3 nemendur af sjúkraliðabraut, 1 nemandi af starfsbraut og 5 nemendur úr vélvirkjun og vélstjórn.

Þórdís Þórarinsdóttir flutti ávarp brautskráðra nemenda. Kristín Sigurrós Einarsdóttir flutti ávarp 20 ára stúdenta og Hrefna Björg Guðmundsdóttir flutti ávarp 30 ára stúdenta.

Að lokum flutti skólameistari nemendum heilræði fyrir lífið og óskaði þeim velfarnaðar.

Eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar:

Gústav Ferdinand Bentsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum húsasmíða.

Jón Helgi Sigurgeirsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum vélstjórnarbrautar A.

Karen Helga R. Steinsdóttir hlaut eftiraldar viðurkenningar:

  1. Fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum náttúrufræðibrautar á stúdentsprófi.
  2. Frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar.
  3. Frá danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
  4. Frá Þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
  5. Fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.

Sigríður Eygló Unnarsdóttir hlaut eftirtaldar viðurkenningar:

  1. Fyrir framúrskarandi  alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar.
  2. Frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í erlendum tungumálum á stúdentsprófi.
  3. Fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.

Stella Jórunn Levy fékk Nýja testamentið að gjöf frá Gídeonfélaginu.

Þórdís Þórarinsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum náttúrufræðibrautar á stúdentsprófi og frá Efnafræðifélagi Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í efnafræði á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar.

.

Fleiri fréttir