Fólk spennt fyrir bókinni Á Króknum 1971 - Myndband

Ágúst Guðmundsson hafði nóg að gera í áritun bóka. Mynd: PF.
Ágúst Guðmundsson hafði nóg að gera í áritun bóka. Mynd: PF.

Húsfyllir var í gær er Ágúst Guðmundsson kynnti nýútkomna bók sína Á Króknum 1971 í útgáfuteiti sem haldið var á KK restaurant á Sauðárkróki. Bókin er gefin út í tilefni 150 ára byggðarafmæli Sauðárkróks, sem er á þessu ári, en 1971 voru árin 100. Feykir mætti á staðinn og myndaði stemninguna.

Bókin skiptist í 18 kafla og er dregin upp skemmtileg mynd af mannlífi á Króknum 1971 en á bókarkápu segir að óhætt megi segja að afmælisárið 1971 hafi verið sérlega merkilegt og viðburðaríkt í sögu bæjarins. „Merkilegast verður þetta ár þó að teljast fyrir þau straumhvörf sem urðu í atvinnumálum bæjarins og bærinn byggir núverandi velsæld sína á, svo sem koma fyrsta skuttogarans.“

Í inngangi segir höfundur að fyrir fáeinum árum hafi kviknað sú hugmynd að forvitnilegt gæti verið að rifja upp hvaða búðir voru opnar á Króknum á 100 ára byggðaafmælinu 1971 og sjá hvernig verslunarhættir á Sauðárkróki hafa breyst á hálfri öld.

„Við lestur heimilda kom brátt í ljós að 1971 er að öllum líkindum eitt viðburðaríkasta ár í sögu bæjarins. Miklar breytingar urðu á árinu í atvinnulífi bæjarbúa svo að um munaði og rak hver viðburðurinn annan í þeim efnum. Met var sett í fjölda bygginga með tilheyrandi vaxtarverkjum varðandi gatnagerð og lagnir. Ekki var minna um að vera í félagslífinu. Bæjarbúar ásamt um 1600 gestum sínum fögnuðu í júlíbyrjun 100 ára byggðarafmæli Sauðárkróks með fjölbreyttum hátíðahöldum og uppákomum. Næsta helgi á eftir var um tíu þúsund manna landsmót UMFÍ haldið. Króksarar kepptust við að taka til hjá sér um vorið og mála húsin fyrir gestakomuna og ráðist var í meiri háttar framkvæmdir fyrir landsmótið. Eitthvað varð undan að láta, greiðslugeta bæjarsjóðs var orðin bágborin síðla árs. En hlutirnir hafa tilhneigingu til að bjargast eins og kunnugt er og svo fór í þetta sinn.“

Fyrir utan skemmtilegar mannlýsingar og frásagnir af bæjarlífinu eru fjölmargar myndir í bókinni frá þessum tíma.

Hér fyrir neðan má sjá brot af stemningu útgáfuhófsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir