Stórleikur hjá 2. flokki kvenna á laugardag

Lokastaðan í B-riðli 2. flokks kvenna. Falleg sjón! SKJÁSKOT
Lokastaðan í B-riðli 2. flokks kvenna. Falleg sjón! SKJÁSKOT

Fótboltastelpurnar á Norðurlandi vestra hafa heldur betur sýnt takta í sumar. Nú á fimmtudagskvöldið spilaði 2. flokkur Tindastóls, Kormáks, Hvatar og Fram sinn síðasta leik í 1-riðli B-deildar Íslandsmótsins og var andstæðingurinn Haukar. Leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði og fór svo að Norðvestur-úrvalið vann leikinn 2-4 og endaði efst í riðlinum, fékk 30 stig í 12 leikjum. 

Saga Ísey Þorsteinsdóttir hefur heldur betur verið iðin við kolann í sumar og skorað grimmt. Hún gerði tvö fyrstu mörk leiksins á 21. og 23. mínútu. Haukastúlkur sitja í neðsta sæti riðilsins en þær gáfust ekki upp og náðu að jafna fyrir leikhlé. Birgitta Rún Finnbogadóttir kom Norðurvestir-úrvalinu yfir á ný á 71. mínútu og þremur mínútum síðar var Saga Ísey aftur á ferðinni með fjórða markið en sitt þriðja. Góður sigur og frábær árangur í sumar..

Liðin sem voru með Norðvestur-úrvalinu í riðli voru ekki af verri gerðinni; Valur/KH, Afturelding, Þróttur, ÍA, Fram og Haukar. Þar sem tveir riðlar eru í gangi í B-deildinni þá mæta stelpurnar okkar liðinu sem hafnaði í öðru sæti í riðli 2 í úrslitaleik um hvort liðið fer upp í A-deild. Það kom í ljós í dag að andstæðingurinn er Þór/KA/Völsungur 2. Samkvæmt upplýsingum Feykis fer þessi stórleikur fram á Sauðárkróksvelli á morgun, laugardaginn 23. september, og hefst kl. 15:00.

Feykir náði í skottið á Donna þjálfara í morgun og var hann þá kominn til Noregs með U20 liði Íslands. Hann var eldsnöggur að svara spurningum Feykis.

Saman erum við frábær, segir Donni

Annar flokkur kvenna sigrar B-riðil með talsverðum yfirburðum í sumar. Hvað segir það okkur um hópinn því nú voru mörg sterk lið í riðlinum? „U20 liðið okkar hefur staðið sig svakalega vel i allt sumar. Það er heldur betur mikill efniviður hjá okkur og verður mjög gaman að fylgjast með framþróun þessa hóps.“

Er þessi hópur að spila góðan fótbolta, hverjir eru t.d. styrkleikar liðsins? „Þær hafa verið að spila mjög skemmtilegan fótbolta og skorað 47 mörk í tólf leikjum, unnið tíu leiki en einungis tapað tveimur. Liðið samanstendur af leikmönnum á bæði 2. flokks og 3. flokks aldri auk þess sem nokkrir eldri leikmenn hafa verið með og þar kemur mjög sterk tenging við mfl. leikmenn inn í hópinn sem er mjög mikilvægt fyrir framtíðina.“

Saga Ísey frá Hvammstanga er komin með 13 mörk í 2. flokki í tíu leikjum en hún er aðeins 15 ára og því einnig að spila með 3. flokki. Hvað geturðu sagt okkur um hana, er hún fæddur markaskorari? „Saga Ísey er algerlega geggjaður leikmaður sem getur klárlega náð i fremstu röð. Hún hefur marga góða kosti og er klárlega fædd til að skora mörk. Það verður mjög gaman að fylgjast með henni á næstu árum.“

Kemur árangurinn á óvart í ljósi þess að stelpurnar eru að koma víða að af Norðurlandi vestra? „Árangurinn er ekki sérlega óvæntur þar sem þær eru hreinlega geggjaðar saman og tengjast mjög vel. Þetta er að hluta til afrakstur frábærs samstarfs á milli félaganna af Norðurlandi vestra. Við erum hvert fyrir sig of fá til árangurs en saman erum við frábær. Síðan kynnast stelpurnar betur í FNV og knattspyrnu-akademíunni þar og eflast þá ennþá meira saman,“ segir Donni í lokin.

Nú er bara að fjölmenna á völlinn og styðja stelpurnar. Koma svo!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir