Fræðsludagur skólanna í Skagafirði

Um 200 starfsmenn skóla í Skagafirði voru saman komnir í Miðgarði í gær. Myndir:FE
Um 200 starfsmenn skóla í Skagafirði voru saman komnir í Miðgarði í gær. Myndir:FE

Um 200 starfsmenn leik-, grunn- og tónlistarskóla í Skagafirði voru samankomnir í Miðgarði í gær þegar Fræðsludagur skólanna í Skagafirði var haldinn. Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg og segir Herdís Á. Sæmundardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, að ekki hafi verið annað að merkja en starfsmenn skólanna væru ánægðir með daginn og þættu erindin sem flutt voru áhugaverð og gott veganesti inn í nýtt skólaár. 

Kennarar Tónlistarskólans ásamt Írisi Olgu Lúðvíksdóttur brutu upp dagskrána.

Meðal þess sem á dagskránni var má nefna umfjöllun Sunnu Bjarkar Atladóttur, lögmanns hjá PACTA og persónuverndarfulltrúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar, og Helgu Harðardóttur, kennsluráðgjafa hjá Fræðsluþjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar, um nýju persónuverndarlöggjöfina, erindi frá Blátt áfram um heimilisofbeldi og erindi Ingva Hrannars Ómarssonar, kennsluráðgjafa og verkefnastjóra hjá Sveitarfélaginu Skagafirði sem nefndist Sáttmáli um skjánotkun.

Kári Stefánsson flutti erindi um menntun og uppeldi.

Aðalfyrirlesari dagsins var Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem fjallaði um menntun og uppeldi. Það er óhætt að segja að erindi Kára hafi vakið óskipta athygli þeirra sem á hlýddu enda er Kári ekki þekktur fyrir að lúra á skoðunum sínum.

Grunnskólarnir í Skagafirði verða settir í næstu viku, Grunnskólinn austan Vatna á miðvikudag en Árskóli og Varmahlíðarskóli á fimmtudag. Að sögn Herdísar Á. Sæmundardóttur er nemendafjöldi svipaður og í fyrra eða rétt um 500 nemendur. Rúmlega 200 nemendur eru í leikskólum fjarðarins en skráningu í tónlistarnám er enn ekki lokið.

Nánar verður rætt við Herdísi í næsta tölublaði Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir