Fræðsludagur skólanna í Skagafirði

Morgunleikfimin tekin í heilsueflandi samfélagi. Mynd: Selma Barðdal.
Morgunleikfimin tekin í heilsueflandi samfélagi. Mynd: Selma Barðdal.

Árlegur fræðsludagur skólanna í Skagafirði var haldinn í Miðgarði þann 15. ágúst og er þetta tíunda árið sem hann er haldinn við upphaf skólaárs. Þar voru saman komnir starfsmenn leik-, grunn- og tónlistarskóla í Skagafirði auk starfsfólks FNV sem nú var með í fyrsta sinn. Feykir hafði samband við Selmu Barðdal, fræðslustjóra, og spurði hana nokkurra spurninga varðandi daginn og komandi skólaár.

Selma segist gera ráð fyrir að fjöldi leik- og grunnskólabarna í Skagafirði verði svipaður nú og var á síðasta skólaári þegar nemendafjöldinn var um 750 börn. Hún segir að mönnun skólanna hafi almennt gengið nokkuð vel, þó auðvitað sé það eitthvað misjafnt eftir starfsstöðvum eins og gengur. Í vetur verði boðið upp á frístundarúrræði eftir skóla í Varmahlíð með sama sniði og Árvist á Sauðárkróki og verði nemendum 1.- 4. bekkjar í Varmahlíðarskóla í fyrsta skipti gefinn kostur á að vera í frístund til kl. 16.00 á daginn.

Nýafstaðinn fræðsludagur er nú orðinn að fastri hefð í skólastarfinu og Selma er innt eftir því hver séu helstu markmiðin með þeim degi.

„Markmið dagsins er fyrst og fremst að tengja saman allt starfsfólk skólanna í Skagafirði, deila góðu verklagi og stuðla að sem bestu lærdómssamfélagi,“ segir Selma. „Við viljum tengja saman mismunandi skólagerðir og skólastig. Á fræðsludegi er saman komið allt starfsfólk leik-, grunn- og tónlistarskóla, ásamt starfsfólki fræðsluþjónustu og stundum frístundar. Á þessum 10. fræðsludegi skólanna í Skagafirði var starfsfólk FNV einnig með okkur.“

Selma segir að dagur sem þessi skili fyrst og fremst aukinni faglegri samvinnu og samstarfi sem leiði til aukinnar samheldni innan skólasamfélagsins á svæðinu. Að þessu sinni tóku um 230 manns þátt í fræðsludeginum, leik-, grunn- og framhaldsskólinn, tónlistarskólinn, starfsmenn frístundar, nefndarmenn  fræðslunefndar og félags- og tómstundarnefndar svo og sveitarstjóri.

„Mín tilfinning er sú að það hafi verið almenn ánægja með daginn. Það sem var sérstaklega ánægjulegt við þennan fræðsludag var þátttaka framhaldsskólans, sem vonandi er einungis upphafið að einhverju stærra og meira samstarfi, sömuleiðis undirritun landlæknis og sveitarstjóra um heilsueflandi samfélag og í framhaldi af þeirri undirritun var á dagskrá erindi frá Embætti landlæknis um heilsueflandi samfélag og skólastarf sem við munum svo vinna áfram með í vetur.“

Það eru starfsmenn fræðsluþjónustu sem halda utan um skipulag fræðsludags en leita eftir hugmyndum frá skólunum. Að þessu sinni var boðið upp á tólf málstofur sem allar voru haldnar af starfsfólki skólanna, leik-, grunn og framhaldsskólans og frístunda, sem Selma segir sýna hvað margt spennandi sé í gangi í skólunum. „Við eigum bæði framsækna skóla og sömuleiðis gríðarlega mikinn mannauð í okkar skólasamfélagi. Fræðsludagurinn er í raun kjörinn vettvangur fyrir starfsfólk skólanna til þess að koma á farmfæri öllum þeim spennandi verkefnum sem það er að fást við í sínu starfi.“

Aðspurð að því hvort einhverjar málstofanna hafi verið vinsælli en aðrar segir Selma að svo hafi ekki verið: „Það var sérstaklega gaman að sjá hvað dreifing hópsins var jöfn í málstofurnar, sem sýnir að áhugasvið hópsins er mismunandi og það er það sem við viljum sjá, nógu mikla flóru og fjölbreytni. Tilfinning mín var sú að margir ættu erfitt með að velja málstofu og hefðu mjög gjarnan viljað geta valið fleiri en tvær. Það er skemmtilegt að upplifa blöndunina í hópnum, leikskólastarfsmenn eru ekki einungis að sækja málstofur um leikskólamál og svo koll af kolli, fólk er að kynna sér allt mögulegt bæði út frá sínu starfi og áhugasviði, hluti af þessu öllu saman er að deila góðum hugmyndum bæði í þeim tilgangi að efla hvert annað og samstarf almennt.“

Að þessu sinni var starfsfólk Fjölbrautaskólans einnig með. Selma segist gera fastlega ráð fyrir að það fyrirkomulag sé komið til að vera. „Við eigum og viljum horfa á okkur sem eitt skólasamfélag. Gaman væri ef við gætum horft til þess að Farskólinn yrði einnig þátttakandi á fræðsludegi og sömuleiðis Háskólinn á Hólum, allir skólar í Skagafirði tækju þátt. Okkkur er umhugað um að Skólar í Skagafirði fái sérstaka merkingu í hugum fólks, sem skólar sem bjóða gæðanám á öllum skólastigum. Skólasamfélagið vinnur hörðum höndum að því að brúa bilið á milli leik- og grunnskóla sem þýðir að allt samstarf er styrkur og þessi dagur er liður í því,“ segir Selma Barðdal fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.    

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir