Framkvæmdahugur hjá Húnaborg á Blönduósi

Ennisbraut á Blönduósi. Mynd af Já.is.
Ennisbraut á Blönduósi. Mynd af Já.is.

Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar sem fram fór í gær voru teknar fyrir nokkrar lóðaumsóknir og athygli vekur að Húnaborg ehf. á fjórar þeirra. Um er að ræða tvö stálgrindarhús atvinnu-og eða geymsluhúsnæði sem og tvö raðhús á Blönduósi.

Að Ennisbraut 5 er sótt um lóð fyrir atvinnu-/geymsluhúsnæði, um 375 m2, húsið verður stálgrindarhús á steyptum sökkli klætt með samlokueiningum. Húsinu verður skipt í 3-5 einingar frá 75m2 að stærð. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið innan 6 mánaða frá útgáfu byggingarleyfis.

Eins hús er áætlað að Ennisbraut 7 og með sömu einingaskiptingu eða 3-5 einingar frá 75m2 að stærð. Áætlað er að hefja framkvæmdir þar innan 9 mánaða frá samþykktu byggingarleyfi og fullu lokið innan tveggja ára.

Húnaborg sækir um tvær lóðir við Sunnubraut undir tvö raðhús. Mynd af Já.is.

 Þá er sótt um lóð fyrir þriggja íbúða raðhúsi að Sunnubraut 13-17 þar sem hver íbúð verður um 100m2 með innbyggðum bílskúr. Húsið verður lágreist timbureiningahús á staðsteyptum grunni og eitt til tvö svefnherbergi í hverri íbúð. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á vormánuðum og að fullu lokið innan 12 mánaða frá því framkvæmdir hefjast.

Að Smárabraut 19-25 er áætlað að byggja fjögurra íbúða raðhús þar sem hver íbúð verður um 120m2 með innbyggðum bílskúr, húsið lágreist timbureiningahús á staðsteyptum grunni. Hver íbúð verður með tveimur til þremur svefnherbergjum. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í október 2018 og að fullu lokið innan 12 mánaða frá því framkvæmdir hefjast.

Tekið var jákvætt í öll erindi Húnaborgar af hálfu nefndarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir