Fráveita á Skagaströnd í útboð
Sveitarfélagið Skagaströnd hefur óskað eftir tilboðum í fyrsta áfanga á fráveitu við Hólanes og Einbúastíg á Skagaströnd. Í verkinu felst vinna við sniðræsi fráveitu, frá Hólanesi til vesturs og norðurs meðfram Hólanesvegi og Strandgötu, allt að Einbúastíg, en þar opnast lögnin um bráðabirgðaútrás til sjávar vestan við Skagastrandarhöfn.
Á heimasíðu Skagastrandar kemur fram að síðar verði þar byggð skolphreinsistöð, en vinna við hana er ekki hluti af útboðsverki þessu.
„Tengja skal núverandi skolpútrásir á leiðinni við hina nýju fráveitulögn, en hún verður úr plasti, þvermál ø300 mm – ø400mm, lengd tæplega 1,0 km. Útbúin verður gönguleið meðfram Strandgötu samhliða framkvæmdunum og er vinna við hana innifalin í verkinu,“ segir á Skagaströnd.is og skal verkinu lokið fyrir 1. nóvember á þessu ári.
Opnunardagur tilboða er 1. mars 2022 en hægt er að óska eftir útboðsgögnum gjaldfrjálst á netfanginu atli@stodehf.is.
Sjá nánar HÉR