Friðarganga, tendrun ljósa, jólasveinalest og jólabingó

Fyrir þremur árum á Kirkjutorginu. Nú er þetta pínu öðruvísi. MYND: ÓAB
Fyrir þremur árum á Kirkjutorginu. Nú er þetta pínu öðruvísi. MYND: ÓAB

Eins og allir ættu að vita þá eru í gildi samkomutakmarkanir á Íslandi og af þeirri ástæðu verður aðventunni fagnað með breyttu sniði í Sveitarfélaginu Skagafirði dagana 26.-28. nóvember – þó reyndar með svipuðu sniði og í fyrra þar sem samskonar staða var uppi í samfélaginu. Í Skagafirði verður ekki formleg dagskrá við tendrun jólatrés á Kirkjutorgi og ekki verða Rótarýfélagar með jólahlaðborð í íþróttahúsinu á Króknum. Sveitarfélagið tekur hins vegar upp þráðinn frá í fyrra og býður að nýju upp á jólasveinalest og hreyfi-jólabingó.

Nemendur Árskóla tendra ljós á jólatrénu á Kirkjutorgi samhliða hinni árlegu friðargöngu skólans sem fram fer föstudagsmorguninn 26. nóvember en líkt og í fyrra verður friðargangan ekki með hefðbundnu sniði vegna heimsfaraldurs. „Að þessu sinni ganga árgangar fylktu liði í átt að Kirkjustíg og upp á Nafir, en gæta þess að hafa bil á milli sín. Ljósið verður ekki látið ganga á milli nemenda en þess í stað ganga formenn 10. bekkinga upp Kirkjustíginn að krossinum á Nöfunum, með ljósið. Til þess að skapa stemningu meðal barnanna er þeim heimilt að hafa með sér vasaljós og kveikja á þeim um leið og ljósið fer fram hjá. Að friðargöngu lokinni fá nemendur kakó og veitingar í bekkjarstofum,“ segir á heimasíðu Árskóla.

Nemendur Varmahlíðarskóla munu tendra ljósin á jólatrénu við Varmahlíðarskóla en hefð er fyrir því að nemendur 4. bekkjar skólans sæki jólatré í Reykjarhólsskóg. Nemendur við Grunnskólann austan Vatna munu tendra ljós á jólatrjánum við sína skóla á Hofsósi og á Hólum en þar er hefðin sú að nemendur á Hólum sækja tré í Hólaskóg. Stefnt er að því að ljósin verði tendruð á trjánum á morgun, líkt og á Króknum, og er veðurspáin skapleg; spáð björtu veðri, pínu frosti og hægum norðvestan vindi. Það er því um að gera að klæða sig vel.

Jólabingó alla helgina

Sveitarfélagið hvetur til samveru fjölskyldunnar um helgina og stendur fyrir hreyfi-jólabingói þar sem fjölskyldur eru hvattar til þess að fara saman í göngutúr og reyna að fá bingó. Um er að ræða ratleik þar sem mynd er tekin úr göngutúrnum á ýmsum stöðum samkvæmt leiðbeiningum á bingó spjaldi. Þegar búið er að ná öllu spjaldinu eru myndirnar sendar inn. Leikurinn verður í gangi alla helgina. Hægt er að taka þátt alls staðar í Skagafirði, en fjögur mismunandi bingóspjöld verða í boði, fyrir Hofsós, Sauðárkrók, Varmahlíð og dreifbýli Skagafjarðar.

Upplýsingar og leiðbeiningar varðandi jólabingóið og jólasveinalestina má finna á  heimasíðu Skagafjarðar en lestin ku fara af stað kl. 16:30 á laugardaginn.

Tónleikahald á aðventu

Eftir því sem Feykir kemst næst er engan bilbug að finna á tónleikahöldurum í Skagafirði á aðventunni, þ.e. tónleikum sem auglýstir hafa verið hefur ekki verið frestað. Þannig stefnir ungt og sprækt skagfirskt tónlistarfólk að því að halda Jólin heima í Miðgarði þann 11. desember og er enn hægt að krækja í miða á þá. Tónleikarnir í fyrra voru frábærir og í ár verður bara bætt í. Þá hefur Skagfirski kammerkórinn auglýst sína árlegu jólatónleika en kórinn stefnir á að syngja í Blönduóskirkju 17. desember og í Hóladómkirkju 19. desember.

Í Háa salnum í Gránu verða Grýlubörnin Svavar Knútur og Aldís Fjóla með jólatónleika 8. desember og 18. desember mætir Hulda Jónasar með sitt jólalið sem flytur klassísk jólalög í bland við ný. Að sögn Áskels Heiðars í Gránu þá verður tónleikahald stillt af miðað við reglur hverju sinni og því ljóst að 50 manns mega sitja fyrri tónleikana en ekki er ljóst nú hvaða reglur verða í gildi 18. desember. Miðar á báða tónleikana eru komnir í sölu.

Minnt er á að Sveitarfélagið Skagafjörður mun líkt og síðustu árin auglýsa jóladagskrána í Skagafirði í Sjónhorninu. Þeim sem standa fyrir viðburðum fram til áramóta er bent á að senda upplýsingar á heba@skagafjorur.is til að komast með í jóladagskrána.

Heimildir: Heimasíður Svf. Skagafjarðar og Árskóla og fleiri góðir aðilar

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir