Frönsk lauksúpa og Tandoori kryddlegið lambalæri

Sigurður og Berglind. Mynd úr einkasafni.
Sigurður og Berglind. Mynd úr einkasafni.

„Við hjónin búum á Skagaströnd og erum bæði að vinna í Höfðaskóla. Við eigum fjögur börn og tvo hunda. Við ætlum að bjóða upp á forrétt, aðalrétt og eftirrétt,“ sögðu matgæðingarnir Berglind Rós Helgadóttir og Sigurður Heiðar Björgvinsson sem sáu um þriðja þátt ársins 2016. „Yfirleitt sér Sigurður um eldamennskuna og eru fjölskyldumeðlimir oft tilraunadýr þegar hann er að prufa sig áfram með uppskriftir."

FORRÉTTUR Í UPPÁHALDI
Frönsk lauksúpa

4 sneiðar franskbrauð
1½ laukur, hrár
1 msk smjör
2 súputeningur
2 dl vatn
rifinn ostur
1 tsk sítrónupipar 

Aðferð:
Hitið ofn í 180-200°C. Látið laukinn krauma í smjörinu þar til hann karmellerast. Bætið heitu vatni, súputeningum og pipar í. Setjið ostinn á brauðið og bakið í ofninum þar til osturinn er bráðinn. Ausið súpunni í skálar og látið eina brauðsneið ofaná hvern skammt. 
Það getur einnig verið gott að skella smá skvettu af hvítvíni út í eða drekka það með. 

AÐALRÉTTUR
Tandoori kryddlegið lambalæri 

4-8 hvítlauksgeirar
1-2 chilipipar, kjarnahreinsaður og skorinn smátt
2½ dl AB mjólk
1 dós sýrður rjómi 10%
3-4 msk Tandoori kryddblanda

Aðferð:
Hakkið hvítlauk og chilipipar í matvinnsluvél. Blandið öllu saman við. Látið fitusnyrt lambalæri í djúpt form. Hellið kryddleginum yfir og látið marinerast í minnst 24. klst. Steikið við 140°C í u.þ.b. 1½ tíma. Hækkið hitann í 200°C síðustu 10-15 mínúturnar til að fá brúnaða húð. 

Sósa:
1 msk grænmetisolía
1 laukur, fínt hakkaður
4 hvítlauksgeirar, fínt skornir
1 sm fersk engiferrót, fínt hökkuð
1 græn paprika, skorin í bita
1-2 chilipipar,kjarnahreinsaður og fínt skorinn
1 tsk cumminduft
1 tsk korianderduft
1 msk Tandoori kryddblanda
1 dós kókósmjólk
½ lítri soðkraftur (Oscar) 

Aðferð:
Léttsteikið grænmetið og bætið kryddi út í og steikið aðeins áfram. Bætið kókósmjólk við og að síðustu kjötsoðinu. Látið sjóða og þykkið með sósujafnara ef þarf. Berið fram með góðu salati, hrísgrjónum og nan-brauði. 

EFTIRRÉTTUR
Pipp-kaka 

Eftirrétturinn sem við bjóðum upp á er Pipp-kaka. Hún er í miklu uppáhaldi hjá öllum fjölskyldumeðlimum en sitt sýnist þó hverjum hvaða Pipp súkkulaði er best að nota í kremið, myntu, banana eða karamellu. Kakan er ferlega góð aðeins volg með kreminu ennþá lekandi, ásamt ís en hún er heldur ekkert síðri beint úr ísskápnum.

250 g suðusúkkulaði
150 g smjör
1 dl sykur
4 egg
2 tsk vanillusykur
½ tsk lyftiduft
½ dl hveiti (Maisena mjöl fyrir glútenfría köku)

Aðferð:
Ofn hitaður í 175°C undir og yfir. Smyrjið smelluform (24cm). Suðusúkkulaðið er brætt í potti, ásamt smjöri, við vægan hita og hrært í. Blandan er látin kólna aðeins áður en sykri og eggjum er bætt út í og hrært vel á milli.  Hveiti vanillusykri og lyftidufti er blandað við. Deiginu er síðan hellt í bökunarform og bakað í 40-50 mín. Fylgist vel með kökunni en hún á að vera blaut í miðjunni. 

Krem:
25 g smjör
½ dl rjómi
200 g Pipp (banana, karmellu eða myntu) 

Aðferð:
Allt brætt saman í potti á vægum hita og hellt yfir kökuna. Gott að skella í ísskáp til að það stífni aðeins áður en það er borið fram.

Takk fyrir okkur og verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir