Frost skemmdi akra í ágúst

Mynd: Frá kornskurði í Blönduhlíð. Mynd: Sævar Einarsson.
Mynd: Frá kornskurði í Blönduhlíð. Mynd: Sævar Einarsson.

Í Skagafirði er þresking á korni langt komin. Að sögn Eiríks Loftssonar, jarðræktarráðunautar, er uppskera breytileg, einkum þroski eða fylling kornsins. Frostnætur í lok ágúst skemmdu nokkra akra þannig að kornið hætti að fylla sig og skila þeir ekki góðu korni.

„Frost í jörðu seinkaði víða sáningu í vor og þó að spretta hafi verið góð í sumar hefur sólarleysi valdið því að korn hefur ekki þroskast sem skildi. Þó að uppskera sé sumstaðar ágæt að magni og gæðum verður árið tæplega meðal kornár í Skagafirði, segir Eiríkur.

Kornræktin skilar ræktendum ekki bara korni heldur líka hálmi. Eiríkur segir notkun hans sem undirburðar fyrir nautgripi og sauðfé hafa aukist mikið á síðustu árum og er hann afar mikilvæg afurð kornræktarinnar.

Eiríkur segist ekki ennþá vera kominn með yfirlit yfir umfang kornræktarinnar í Skagafirði þetta árið en telur sennilegt að korni hafi verið sáð í álíka marga hektara og síðustu ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir