Frumsýning þjóðbúnings Pilsaþyts frestast um óákveðinn tíma

Félagar Pilsaþyts vinna að gerð kyrtils sem ætlaður er til afnota fyrir Fjallkonu Svf. Skagafjarðar við hátíðleg tækifæri. Aðsend mynd.
Félagar Pilsaþyts vinna að gerð kyrtils sem ætlaður er til afnota fyrir Fjallkonu Svf. Skagafjarðar við hátíðleg tækifæri. Aðsend mynd.

Til stóð að Pilsaþytur í Skagafirði myndi frumsýna þjóðbúning, sem þær hafa unnið að sl. tvö ár, þann 1. desember næstkomandi í Miðgarði. Í ljósi sóttvarnatakmarka vegna Covid-19 hefur þeirri samkomu verið slegið á frest í óákveðinn tíma.

Þjóðbúningurinn, kyrtill sem er einn af íslensku þjóðbúningunum, verður ætlaður til afnota fyrir Fjallkonu Svf. Skagafjarðar við hátíðleg tækifæri. Hann er með útsaumi neðst á pilsi, í hálsmáli og framan á ermum. Í aðsendri grein sem Ásta Jónsdóttir, formaður Pilsaþyts í Skagafirði, ritaði fyrir skömmu í Feyki, kemur fram að félagar Pilsaþyts hafi hist reglulega í tvö ár og saumað saman. „Covid 19 setti náttúrulega svolítið strik í reikninginn því aðstæður okkar eru misjafnar þannig að við hættum að hittast um tíma meðan mest flæðið var af því. En nú erum við komnar á þann stað að við erum farnar að sjá fyrir endann á verkefninu. Við höfum því ákveðið að frumsýna búninginn 1. desember næstkomandi í Miðgarði,“ skrifaði Ásta en félagsskapurinn hafði ákveðið að 1. desember verði héðan í frá þeirra dagur eða „Dagur Pilsaþyts.“

Að sögn Ástu hefur ný dagsetning fyrir frumsýningu kyrtilsins ekki verið ákveðin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir