Fuglaskoðun og flækingsfuglafréttir

Á vef Náttúrustofu Norðurlands vestra segir að ekki sé laust við að rómantíkin svífi yfir vötnum þessa dagana enda vor í lofti. Víða sést til fugla af hinum ýmsu tegundum í hefðbundum vorverkum sem felast að mestu í því að sýna sig fyrir hinu kyninu, undirbúa hreiðurgerð og landamæravörslu. Ýmsir flækingsfuglar hafa einnig verið að sjást seinnustu daga.

Aðstæður til fuglaskoðunar eru með besta móti þessa dagana.  Vaðfuglar sjást víða í hópum á leirum og öðrum svæðum sem henta til fæðuöflunar og andapör eru víða í skurðum og smátjörnum við vegi. Andapörum hefur jafnframt fjölgað á vötnum. Tiltölulega auðvelt er að greina endur til tegundar á þessum árstíma þar sem pörin eru saman og steggirnir áberandi í varpbúningi. Fer nú að styttast í að fyrstu kollurnar hefji varp.

Við höfnina hefur verið hægt að sjá ýmsar máfategundir, ritu, æðarfugl, hávellu og teistu seinustu daga. Þá er krían orðin áberandi yfir Borgarsandinum og við Garðsvatn þegar hún flýgur til hafs til fæðuöflunar. Flest allir farfuglarnir eru komnir til landsins og vantar bara óðinshana í Skagafjörðinn.

Sjá nánar á www.nnv.is

Fleiri fréttir