Fyrirhugað að byggja nýjan veg í Refasveit og brú yfir Laxá
Vegagerðin hefur auglýst drög að tillögu að matsáætlum vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda í Refasveit og um Laxá. Í auglýsingunni segir að markmið framkvæmdarinnar sé að bæta samgöngur á Norðvesturlandi, auka umferðaröryggi vegfarenda og íbúa og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu.
Verkið sem hér um ræðir er bygging nýs 8,5 km stofnvegar, allt frá þjóðvegi 1 austan Blönduóss að Þverárfjallsvegi (744) skammt sunnan við brúna yfir Laxá. Þaðan verður byggður nýr vegur til norðurs, 3,3 km að lengd, með nýrri brú yfir Laxá og inn á núverandi Skagastrandarveg norðan við Höskuldsstaði í Skagabyggð. Heildarlengd vega og brúar er um 11,8 km.
Að loknum framkvæmdum mun hinn nýi 8,5 km stofnvegur verða hluti Þverárfjallsvegar og fá heitið Þverárfjallsvegur (73) en hinn 3,3 km vegur með nýrri brú yfir Laxá verður hluti Skagastrandarvegar (74).
Drög að tillögu að matsáætlun eru kynnt á heimasíðu Vegagerðarinnar, http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir/umhverfismat/matsaetlun.
Almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir við áætlunina til 5. mars 2018. Þær skal senda með tölvupósti á netfangið soley.jonasdottir@vegagerdin.is eða til Vegagerðarinnar, Miðhúsavegi 1, 600 Akureyri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.