Fyrsti leikur Tindastóls í Iceland Express deildinni í dag
Meistaraflokkur Tindastóls í körfubolta hefur keppnistímabil sitt í Iceland Express deildinni á ferðalagi til Ísafjarðar, þar sem heimamenn í KFÍ verða heimsóttir í dag.
Leikur þessi er fyrir margra hluta sakir merkilegur. Þetta er fyrsti leikur Borce Ilievski gegn fyrrum lærisveinum sínum, en undir hans stjórn sigruðu Ísfirðingar 1. deildina örugglega. Þá verður þetta fyrsti leikur KFÍ í úrvalsdeild í nokkur ár, en liðið féll úr deildinni keppnistímabilið 2004-2005 ásamt Tindastóli. Stólarnir rifu sig þó upp strax árið eftir, en KFÍ hefur verið í 1. deildinni þangað til nú.
Leikurinn verður einnig fyrsti leikur þeirra Josh Rivers og Rado Kolev, en þeir komu til liðsins um síðustu helgi. Þessi tvö lið eru þau lið í IE-deildinni sem hafa á að skipa flestum erlendu leikmönnunum. Hjá Tindastóli eru þeir fjórir, en hjá KFÍ eru þeir samtals 6. KFÍ fékk auk þess tvo efnilega íslenska leikmenn til liðs við sig, þá Daða Berg Grétarsson og Ara Gylfason.
KFÍ er spáð 10. sætinu í Iceland Express deildinni þetta árið, en Tindastól því 12. og þar með falli í 1. deild. Miðað við brokkgenga frammistöðu Tindastóls á undirbúningstímabilinu og miðað við þá staðreynd að liðið varð ekki fullmannað fyrr en á æfingu á mánudagskvöld, er þessi spá ekkert óeðlileg og í raun ágæt fyrir okkar menn, sem þurfa nú að sýna að þeir eigi heima ofar í töflunni en þetta. KFÍ náði hins vegar athyglisverðum úrslitum á undirbúningstímabilinu, unnu m.a. Stjörnuna í fyrstu umferð og eru til alls líklegir, sérstaklega á heimavelli.
Friðrik Hreinsson er tæpur vegna ökklameiðsla og óvíst með hans þátttöku í leiknum á þessari stundu, en aðrir leikmenn eiga að vera í standi.
Leikurinn verður í beinni netútsendingu frá Ísafirði og nálgast má útsendinguna á slóðinni http://www.kfi.is/kfi_tv/.
/Tindastóll.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.