Fyrsti símalausi dagurinn í Grunnskóla Húnaþings vestra
Í gær var fyrsti símalausi dagurinn í Grunnskóla Húnaþings vestra og tókst hann vel eftir því sem kemur fram á heimasíðu skólans. Þar segir að greinilegt hafi verið í samtölum við nemendur og í fasi þeirra að þessi breyting reynist sumum erfið enda margir vanir að skilja símann aldrei við sig en tekið er fram að nemendur eigi hrós skilið fyrir góðar undirtektir.
Ekki þurfti að minna marga nemendur á að síminn ætti ekki að vera uppi við í skólanum og tóku þeir þeim ábendingum vel. Fundað verður með nemendaráði á mánudaginn til að fara yfir fyrstu dagana. „Það kemur okkur í skólanum ekki á óvart að nemendur standa sig vel, en munum að starfsfólk skólans og foreldrar þurfa að styðja við þá nemendur sem reynist þetta hvað erfiðast vegna vanans og rútínunnar,“ segir á heimasíðu skólans.
Í reglum skólans um síma- og snjalltæki segir að nemendur skulu ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Þetta á einnig við um starfsfólk sem ekki má nota síma meðal nemenda hvorki í frímínútum eða í kennslustundum. Undantekning frá þessari reglu er starfsfólk frístundar sem skylt er að hafa frístundafarsíma við höndina og svara í hann þegar foreldrar hringja. Einnig skulu skólastjórnendur vera með síma sem símtöl úr aðalnúmeri flytjast í ef engin er við á skrifstofu. Kennurum er þó heimilt að nota síma sem kennslutæki og nemendum heimilt að nota spjald- og fartölvur í námi með samþykki kennara.