Gæðingur drukkinn á Króknum

Nú er hægt að bragða á fljótandi gæðingi á Króknum þar sem hin nýja afurð Árna bónda í Útvík í Skagafirði er kominn á markað í öldurhúsum bæjarins. Til að byrja með verða tvær tegundir í boði; Gæðingur stout og Gæðingur lager sem tappaður verður á flöskur á morgun.

Uppsetning og undirbúningur hefur tekið um tvö ár og er brugghúsið staðsett í byggingu milli íbúðarhúss og fjóss sem upphaflega hýsti hænur í Útvík og segir Árni að ef sett verði upp bjórstofa á staðnum yrði það að sjálfsögðu látið heita Pútnahúsið.

Miðar flöskunnar eru hannaðir af fjöllistamanninum Hugleiki Dagsyni en fyrir ættfræðiþyrsta er mamma  Hugleiks og Árni systkinabörn.

Aðspurður um nafnið á bjórnum segir Árni að gæðingar fari vel í munni og hann hafi alltaf langað til að selja gæðinga í kippum.

Búið er að senda umsókn um tvær tegundir til sölu í ÁTVR og segir Árni það sennilega ganga eftir og fari Gæðingurinn því í sölu þar þann 1. júní nk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir