Gámasvæðum fækkað um eitt
Hreppsnefnd Húnavatnshrepps hefur til þess að ná fram sparnaði í sorphirðu að fækka gámasvæðum í sveitarfélaginu um eitt. Gámasvæði verða eftirleiðis við Aralæk, Dalsmynni og Húnaver.
Þá verður sú breyting gerð að ekki verður gert ráð fyrir að opnir gámar fyrir járn og timbur verði á gámasvæðum, heldur eingöngu lokaðir midi gámar fyrir heimilissorp og söfnunartankar fyrir úrgangsolíu
Á heimasíðu Húnavatnshrepps segir; „Til að auðvelda sorphirðu þá er afar mikilvægt að á sorphirðudögum séu sorpkör utandyra á aðgengilegum stað sem hægt sé að keyra að. Borið hefur á því á nokkrum bæjum að körin séu yfirfull og sorpi komið fyrir við þau. Þetta hefur í för með sér töluverðan aukakostnað. Tekið skal fram að sorphirðugjöld miðast við losun á einu kari á tveggja vikna fresti. Umsjónaraðila sorphirðu ber engin skylda til þess að taka það sorp sem er utan sorpíláts. Þar sem svo háttar til viljum við benda á að aðilar fái sér auka sorpkar og greiði fyrir losun þeirra samkv. gjaldskrá, eða nýti sér gámasvæðin þar sem eru midi gámar fyrir heimilissorp.
Mikilvægt er að draga úr óþarfa sorpurðun sem er dýr, því viljum við brýna fyrir íbúum hreppsins að setja ekki endurvinnanlegt efni, pappír og plast, í sorpkörin. Endurvinnanlegu efni og ónýtum heimilistækjum er hægt að koma til Sorphreinsunar VH ehf, á Ægisbraut 14 Blönduósi, án endurgjalds. Hafa verður samband við VH í síma 452-2958 eða 893-3858. Einnig er hægt, gegn gjaldi, að koma með járn og timbur á svæðið, eða fá opinn gám heim .
Varðandi söfnun á rúlluplasti skal tekið fram að það er hirt á bæjum fjórum sinnum á ári, það á ekki að fara í sorpkör undir heimilissorp.“