Gamla bílaverkstæðið rifið

Nú er unnið að því hörðum höndum að jafna gamla bílaverkstæði KS við jörðu og eru þar að verki starfsmenn Vinnuvéla Símonar Skarphéðinssonar. Húsið á sér langa og merka sögu en upphaflega var það byggt sem sláturhús.

Samhliða slátrun voru starfræktar nokkrar sérbúðir í norðurhluta byggingarinnar eins og tíðkaðist í þá daga, mjólkurbúð, fiskbúð, kjötbúð ásamt kjötvinnslu en sú starfsemi færðist í nýtt húsnæði á Skagfirðingabrautinni sem nú heitir Stjórnsýsluhúsið.

Þegar nýtt hús undir slátrun var byggt á Eyrinni og starfsemin flutt þangað var byggt á milli aðalbyggingar og gæruhússins sem síðar varð smurstöð og bílaverkstæði rekið í húsinu ásamt varahlutaverslun og sprautuverkstæði allt fram á þann dag er allri starfsemi var hætt í húsinu. Þá má telja upp aðra þætti rekstrar sem fram fór í norðari hluta hússins s.s. eins og rafmagnsverkstæði, vélaverkstæði og nú síðast var Máki með seiðaeldi.

Brynjar Pálsson eða Binni Júlla eins og flestir kalla hann eyddi stórum hluta starfsævi sinnar í húsinu og segir að góðir andar hafi ætíð fylgt því. Binni segir að húsið eigi sér langa og merka sögu en einna merkilegast finnst honum vera þegar húsið var byggt þá voru tveir menn Sigfús Björnsson og Jón stóri sem kallaður var sem keyrðu allt efni í húsið úr fjörunni á litlum kerrum en það hafi verið mikil vinna og erfið. Hvert hinir góðu andar sem fylgdu húsinu svo lengi fara er ómögulegt að segja en kannski fylgdu þeir með á nýjan stað í Kjarnanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir