Gamla frystihúsið á Hofsósi verður lóðrétt býli

Amber Moroe eigandi Ísponica. MYNDIR AÐSENDAR
Amber Moroe eigandi Ísponica. MYNDIR AÐSENDAR

Amber Monroe, fædd og uppalin í Bandaríkjunum, kom fyrst til Íslands árið 2017 og varð ástfangin af landinu. Þetta var einhvers konar „a-ha móment þar sem ég vissi að ég hefði fundið staðinn sem ég vildi vera á. Fólkið hérna er svo indælt og náttúran svo sérstök."

Fjölskyldan hennar býr í Georgíu, nálægt borginni Savannah. Amber er einkabarn foreldra sinna en á stóra fjölskyldu og mörg frændsystkini. Amber flutti til Íslands 2018 til að stunda mastersnám í vatnalíffræði við Háskólann á Hólum. Þar rannsakaði hún áhrif vatnsgæða á steinbít, sem er mjög áhugaverður fiskur að vinna með. Amber er ein af starfsmönnum Háskólans á Hólum í dag.

Amber á fyrirtæki sem heitir Ísponica sem stofnað var árið 2021 í kjallara Hlöðunnar á Hólum. Um er að ræða lóðrétt býli sem er innandyraræktun sem notar vatnsfræði. Þetta þýðir að þau nota fiskavatn(fiskabúr) til þess að útvega næringarefni fyrir plönturnar sem þau rækta. Lóðrétt bú gerir þeim kleift að rækta grænmeti í hillum, sem þýðir að þú getur komið fyrir fleiri plöntum á sama stað. „Í augnablikinu er ég aðallega að einbeita mér að örgrænum (sprettum) og ætum blómum. Undanfarin ár höfum við oft verið í samstarfi við skóla eins og Háskólann á Hólum. Þetta gerir nemendum kleift að koma og gera rannsóknarverkefni um innilandbúnað með okkur. Það hefur verið mjög áhugavert og gaman að sjá nemendur þróa verkefni sín og fræðast um fisk og grænmeti.

Nú eru spennandi tímar framundan hjá fyrirtækinu á Hofsósi. „Ég er virkilega spennt fyrir því sem er að gerast á Hofsósi. Það var frábær byrjun fyrir Ísponica að vera á Hólum og fólkið í samfélaginu hefur stutt okkur mjög mikið. Ég er þakklát fyrir alla þá hjálp og hvatningu sem fólk hefur veitt okkur. Næsta skref er að Ísponica flytji yfir á Hofsós til að setjast að í fyrrverandi frystihúsi staðarins. Húsnæðið er í eigu Geimur Geymslur og hafa þeir staðið sig frábærlega í endurbótum á svæðinu sem ætlaðar eru fyrir Ísponica. Draumurinn er svo að búa til stórt innibú sem framleiðir grænmeti og fisk. Í framtíðinni vonumst við til að opna kaffihús sem notar vörur sem ræktaðar eru hjá Ísponica og frá öðrum bændum á svæðinu. Það er auðvelt að ímynda sér að borða á kaffihúsi með disk af fersku salati og fiskisúpu og horfa út yfir hafið yfir í Drangey því þetta er svo fallegur staður."

„Það mun taka tíma að koma þessum hlutum í framkvæmd en mér finnst Hofsós vera frábær staður fyrir Ísponica að koma sér fyrir á. Ég vona að Ísponica verði til um ókomin ár (vonandi jafnvel löngu eftir að ég er farin!), svo tel ég mikilvægt að vera virk í samfélaginu og miðla upplýsingum til þeirra sem hafa áhuga á að vera upplýstir og innvolveraðir,“ segir Amber að lokum.

Það verður spennandi að fylgjast með þessu fyrirtæki sem á vonandi eftir að blómstra á nýjum stað á Hofsósi. /gg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir