Geggjaður endurkomusigur Stólastúlkna fyrir austan

Melissa Garcia gerði annað mark Stólastúlkna í dag og kom liðinu í 1-2 en þá átti eitt og annað eftir að gerast. Þessi mynd er frá því í sigurleik á liði Víkings um síðustu helgi. MYND: ÓAB
Melissa Garcia gerði annað mark Stólastúlkna í dag og kom liðinu í 1-2 en þá átti eitt og annað eftir að gerast. Þessi mynd er frá því í sigurleik á liði Víkings um síðustu helgi. MYND: ÓAB

Stólastúlkur skruppu austur á Reyðarfjörð í dag þar sem þær mættu sameinuðu liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í 15. umferð Lengjudeildarinnar. Ekkert annað en sigur kom til greina í leiknum til að koma liði Tindastóls upp fyrir HK á töflunni og í annað sætið. Heimastúlkur náðu forystunni í fyrri hálfleik en dramatíkin var algjör síðustu 20 mínútur leiksins og fór svo á endanum að stelpurnar okkar nældu í dýrmætan 2-3 sigur.

Murr var ekki langt frá því að koma Stólastúlkum yfir en skaut í stöng eftir glæsilegan snúning í teignum. Það var Linli Tu sem náðu forystunni fyrir lið Austfirðinga á 33. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Lið Tindastóls jafnaði metin á 73. mínútu með marki frá henni Murr okkar, skallaði boltann aftur fyrir sig  í markið eftir langa sendingu frá Hrafnhildi. Melissa Garcia kom liði Tindastóls yfir á 77. mínútu eftir góðan undirbúning Aldísar Maríu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði hin kínverska Linli Tu metin af harðfylgi en hún er búin að gera 14 mörk í sumar. Baráttan var mikil og allt undir á lokamínútunum og þá poppaði varnarjaxlinn Arna Kristins upp með sigurmark á 89. mínútu leiksins eftir að boltinn féll til hennar rétt utan markteigs eftir aukaspyrnu frá Hönnuh Cade. Annað markið hennar í sumar og bæði sigurmörk en áður hafði Arna skorað í 0-1 sigri á liði Fylkis í sumarbyrjun. Austfirðingar náðu ekki að ógna marki Tindastóls það sem eftir lifði og gerðu stelpurnar vel í því að halda boltanum innan liðsins og fjarri eigin marki.

Geggjaður 2-3 sigur því niðurstaðan og með því skaust lið Tindastóls upp fyrir HK-stelpurnar hans Guðna Þórs og í annað sætið þegar þrjár umferðir eru eftir. Aðeins munar einu stigi á liðunum og alveg öruggt að spennan verður óbærileg fram á síðustu mínútu mótsins.

Donni þjálfari var að vonum kátur þegar Feykir spurðist fyrir um leikinn. „Virkilega stór sigur fyrir okkur i toppbaráttunni. Við stjórnuðum leiknum vel en fengum á okkur mark gegn gangi leiksins. Við fórum vel yfir málin í hálfleik og náðum að skora þrjú góð mörk. Svakalegur barráttusigur og ég er mjög stoltur af stelpunum.“

Á fimmtudag kemur lið Fjölnis í heimsókn á Krókinn og á sama tíma mætast lið HK og Víkings í Kórnum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir