Genginn ævivegur - Ævisaga Gunnars í Hrútatungu
Út er komin hjá Bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi bókin Genginn ævivegur sem er ævisaga Gunnars Sæmundssonar frá Hrútatungu í Hrútafirði. Gunnar var um langt skeið forystumaður í sinni sveit og hefur starfað ötullega að ýmsum félagsmálum um dagana.
Í kynningu á bókinni segir:
„Í ævisögu Gunnars í Hrútatungu kynnumst við unglingnum sem var of efnalítill til að komast í héraðsskóla en tók ungur að láta til sín taka í félagsmálum.
Hann gerðist forystumaður í sókn sveitanna til velmegunar á seinni hluta 20. aldar og átti farsælan feril í fylkingarbrjósti samtaka bænda. Hér segir frá sókn og sigrum, átökum og flokkadráttum og höfundur dregur ekkert undan og fegrar ekki eigin hlut.
Saga Gunnars í Hrútatungu er líka saga mannlífs og náttúru í Hrútafirði og nágrenni. Sagt er frá snjómokstri á Holtavörðuheiði, hröfnum með mannsvit, veiðiskap á heiðum uppi og margbreytilegu mannlífi.
Genginn ævivegur eftir Gunnar Sæmundsson, sauðfjárbónda og félagsmálamann, er fróðleg bók og rituð á kjarngóðri íslensku."
Bókin er 380 síður, harðspjalda og í stóru broti.
Hjá Bókaútgáfunni Sæmundi eru einnig komnar út bækurnar Undir hrauni sem er ný skáldsaga eftir Finnboga Hermannsson rithöfund og fréttamann á Ísafirði og ljóðabókin Í bakkafullan lækinn eftir Bjarna Bjarnason, fyrrverandi lektor og leiðsögumann.
Um bókina Undir hrauni segir í kynningu frá útgefanda:
„Undir hrauni heitir ný skáldsaga eftir Finnboga Hermannsson rithöfund og fréttamann á Ísafirði. Sagan byggir á sögulegum atburðum hér á landi á stríðsárunum.
Aðfaranótt 10. maí 1940 þegar Bretar tóku Ísland herskildi flúðu tveir þýskir skipbrotsmenn úr Reykjavík með senditæki í fórum sínum og tóku sér bólfestu austur í Rangárvallasýslu. Annar flóttamannanna átti í ástasambandi við íslenska stúlku, Helgu Maríu dóttur Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Mennirnir höfðust við í Hekluhrauni og unnu launalítið í púlsvinnu fyrir bóndann í Selsundi.
Bretar gerðu ákafa leit að piltunum strax eftir flóttann, miðuðu út tæki þeirra en gripu í tómt. En eftir að fé hafði verið lagt til höfuðs piltunum komst breska herstjórnin á snoðir um þá og flutti utan.
Æsileg saga þýsku flóttamannanna í Hekluhrauni og ástarævintýri Maríu Tryggvadóttur eru hér fléttuð meistaralega saman í heimildaskáldsögu Finnboga Hermannssonar fréttamanns á Ísafirði.
Finnbogi Hermannsson fréttamaður á Ísafirði er löngu landsþekktur fyrir einstæða frásagnarhæfileika. Undir hrauni er tólfta bók höfundar."
Bókin er 123 síður, harðspjalda.
Um ljóðabókina Í bakkafullan lækinn segir:
„Ljóðskáldið Bjarni Bjarnason, fyrrverandi lektor og leiðsögumaður, yrkir hér um lífið, ástina, guðdóminn og töfrandi náttúru.
Í bakkafullan lækinn er önnur ljóðabók höfundar. Bókin Brot í bundnu máli sem út kom árið 2011 hlaut góða dóma og viðtökur ljóðelskra lesenda."
Bókin, sem er kilja, er 42 blaðsíður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.