Gestafjöldi í sundlaugum svipaður í ár og á síðasta ári

Sundlaugin á Blönduósi. Mynd: Sundlaugar.is
Sundlaugin á Blönduósi. Mynd: Sundlaugar.is

Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki beinlínis leikið við okkur hér á vestanverðu Norðurlandi síðasta sumar virðiðst aðsókn í sundlaugar svæðisins vera síst lakari en á síðasta ári. Feykir hafði samband við forstöðumenn íþróttamiðstöðva á svæðinu og forvitnaðist um aðsóknartölur fyrir sumarið.

Í íþróttamiðstöð Húnaþings vestra komu, á tímabilinu 1. maí til 30. september á þessu ári, 14.678 gestir. Það eru örlítið fleiri heimsóknir en á síðasta ári þegar fjöldinn var 14.381 gestur. Tanja M. Ennigard hjá íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga segir að þar muni mest um meiri aðsókn heimamanna.  

Róbert Daníel Jónsson hjá íþróttamiðstöðinni á Blönduósi segir aðsókn það sem af er ári vera á pari við síðasta ár. Hins vegar hafi gestafjöldi á tímabilinu 1. júní til 20. ágúst dregist lítillega saman, voru 19.982 heimsóknir í ár en 20.305 árið 2017 en það ár var mjög góð aðsókn að sögn Róberts. 

Heildaraðsókn í sundlaugarnar í Skagafirði yfir sumarmánuðina þrjá, júní til ágúst, var 43.294 gestir að sögn Þorvaldar Gröndal, frístundastjóra hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Í sundlaugina á Sauðárkróki komu 9.604 gestir, 26.441 gestur í sundlaugina á Hofsósi, 5.781 komu í sundlaugina í Varmahlíð og sundlaugina á Sólgörðum heimsóttu 1.468 gestir. Feykir hefur ekki undir höndum sambærilegar tölur fyrir allt tímabilið í fyrra hjá sundlaugum í Skagafirði.

Ekki bárust svör frá öðrum sundlaugum sem leitað var til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir