Glatt á hjalla hjá Gránu :: Söngurinn ómar í Háa salnum

Tónlistarkonan Blankiflúr mun halda útgáfutónleika fyrstu breiðskífu sinnar Hypnopompic í Háa salnum á Gránu Bistro á Sauðárkróki á laugardaginn. Það er Inga Birna Friðjónsdóttir sem stendur að baki Blankiflúr.
Tónlistarkonan Blankiflúr mun halda útgáfutónleika fyrstu breiðskífu sinnar Hypnopompic í Háa salnum á Gránu Bistro á Sauðárkróki á laugardaginn. Það er Inga Birna Friðjónsdóttir sem stendur að baki Blankiflúr.

Menningarfélag Gránu á Sauðárkróki hefur blásið í herlúðra og stendur fyrir metnaðarfullum atburðum í tónleikaröð vetrarins. Fyrir skömmu kom dúettinn Sycamore Tree fram í Háa salnum í Gránu og á dögunum voru þau Malen Áskelsdóttir, Sigvaldi Helgi Gunnarsson og Reynir Snær Magnússon með tónleika. „Það var mjög vel mætt, notaleg og þægileg stemming. Mjög góð byrjun,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri 1238.

Hái salurinn er nýtt nafn á tónleikaaðstöðu í Gránu en Áskell segir tilraunir hafi verið gerðar með viðburði í veitingasalnum, fyrir Covid, sem gengu mjög vel, en nú hafi verið ákveðið að gera smá tilfærslur í miðjusal sýningar 1238.

„Þar er meira pláss, hátt til lofts og góður hljómburður, mjög spennandi salur. Við erum opin fyrir ýmsu varðandi menningarviðburði í salnum hjá okkur, allir sem hafa áhuga eru hvattir til að hafa samband við okkur,“ segir Áskell Heiðar. „Salurinn er mjög fínn, getur tekið yfir 100 manns í sæti og hljómburður er mjög fínn. Svo er auðvitað Grána sjálf mjög skemmtilegur „forsalur“ þar eru snyrtingar, bar og auðvitað hægt að bæta veitingaupplifun við tónleikaupplifunina.“

 

Metnaðarfull dagskrá framundan

Heiðar segir menningarfélagið vera með ýmislegt á prjónunum, bókmenntaviðburði, Sturlungaviðburði, uppistand og fleira. „En það voru tónlistarviðburðirnir sem við vildum kynna fyrst, sérstaklega þar sem við fengum góða styrki, bæði frá Uppbyggingarsjóði NV og frá Menningarsjóði KS til að bjóða upp á tónlistarviðburði með ungu skagfirsku tónlistarfólki. Malen, Sigvaldi og Reynir riðu þar á vaðið, Inga Birna Friðjónsdóttir er á dagskrá undir lok mánaðarins og í nóvember koma t.d. Rannveig Sigrún, Róbert Smári, Eysteinn Ívar, Edda Borg og Reynir Snær fram á mjög spennandi tónleikum. Svo verða skagfirsk ungmenni á öllum aldri á sviðinu fyrir jólin með Jólin í Gránu.

Svo kemur frábært listafólk til okkar eins og Ragnheiður Gröndal og Kristjana Stefáns sem ætla að syngja jazz í nóvember, Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Eldjárn koma með vísna- og þjóðlagaballöður núna í október og þá koma áhugaverðir menn úr Eyjafirði hingað 22., Magni bróðir, Óskar Álftagerðisbróðir og Valmar. Grýlubörn verða svo hér með jólaandann í byrjun des og svo áðurnefndir jólatónleikar 18. des.“

Áskell Heiðar vonar að Skagfirðingar og nærsveitungar kunni að meta það flotta framtak, að bjóða upp á fjölbreytta menningarviðburði í heimabyggð.

Við þetta má bæta að Inga Birna Friðjónsdóttir, sem stendur að baki Blankiflúr, er í viðtali í Feyki vikunnar, en hún verður með tónleika í Háa salnum nk. laugardag.
Í kvöld verður aftur á móti 3ja stiga skemmtun í salnum þars em haldið verður stuðningsmannakvöld körfuknattleiksdeildar Tindastóls og á föstudagskvöldið ætla Magni, Óskar Pétursson og Valmar að töfra fram kvöldstund með vitleysingum, samkvæmt því hvernig atburðurinn er kynntur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir