Glatt á hjalla í Víðihlíð

Frá því er sagt á vef Norðanáttar að Kvenfélagið Freyja hafi staði fyrir jólatrésskemmtun fyrir öll börn í sveitarfélaginu í félagsheimilinu Víðihlíð sunnudaginn 28. desember. Kátt var á hjalla og gestir skemmtu sér konunglega á jólaballinu. 

Að venju var dansað í kringum jólatréð og sáu Elinborg Sigurgeirsdóttir og Skúli Einarsson um tónlistina. Um miðbik skemmtunarinnar var hlé gert á dansinum og gestir gæddu sér á kakó og meðlæti. Dansinum var svo haldið áfram og slógust tveir jólasveinar með í för. Jólasveinarnir léku á alls oddi, dönsuðu með krökkunum, sýndu fimi sína og drógu svo gotterí og mandarínu upp úr pokum sínum fyrir börnin.

Myndasyrpu frá jólaballinu er að finna á vef Norðanáttar.

 

Fleiri fréttir