Góð helgi hjá drengjaflokki.
Um helgina spilaði Tindastóll tvo leiki í A-riðli drengjaflokks. Kristinn Loftur Einarsson skrifaði skemmtilega ferðasögu sem við afritum að sjálfsögðu hingað inn.
KR-b
Fyrri leikur helgarinnar var gegn b-liði KR. Tindastóll mætti tilbúið til leiks og náði strax 9-0 forystu þar sem Einar Bjarni og Hákon skoruðu með sterkum drivum og hraðaupphlaupum. KR vaknaði eitthvað aðeins til lífsins og jafnræði var með liðunum út leikhlutann og hélst munurinn allan tímann í kringum 10 stigum, 29-19 eftir fyrsta leikhluta. Rúnar og Tobbi settu niður stóra þrista í leikhlutanum og var Rúnar á eldi en hann setti 12 stig í leikhlutanum. Tindastóll átti annan leikhluta og spilaði alveg tryllta vörn sem KR ætlaði ekki að finna svar við. Þessi leikhluti fór 21-8 og því fór Tindastóll í hálfleikinn í stöðunni 50-27. Reynald kom með hörku innkomu í leikhlutann setti fjögur stig og spilaði góða vörn eins og allir. Í þriðja leikhluta kláraðist leikurinn en þar sýndi Tindastóll að þeir voru einu númeri of stórir og komust í 30 stiga muninn. Síðustu mínútur þriðja leikhluta enduðu með 15-2 áhlaupi Stólanna, þar sem margar hverjar körfurnar komu eftir stolna bolta eftir sterka maður á mann pressu. KR komu í fjórða leikhlutann með 7-0 áhlaup en eftir það skiptust liðin á að skora og allir leikmenn voru að skipta á milli sín mínútunum.
Það sem einkenndi leikinn var hörku vörn og hraðar sóknir. Langflest stig Tindastóls komu eftir gegnumbrot, en ef tvöfaldað var í gegnumbrotinu biðu strákar eins og Tobbi og Rúnar eftir auðveldum þristi óvaldaðir. Mjög góður heildar leikur hjá liðinu öllu.
Gaman er að segja frá því að vörnin var svo sterk að KR sá varla opið skot í leiknum. KR skoraði í öllum leiknum einungis úr einu skoti (þ.e.a.s. fyrir utan teiginn), stig KR komu einungis úr klafsi undir körfunni, gegnumbrotum eða úr vítum.
Lokatölur leiksins voru: 97-66.
1.(29-19) 2.(21-8) 3.(28-14) 4.(19-23)
Stigahæðstu menn: Rúnar (27), Einar Bj. (21), Hákon (20), Sigurður (10), Tobbi (9), Reynald (4), Binni / Benni / Pálmi (2).
FSu
Seinni leikur liðsins var eins og leikmenn höfðu gert ráð fyrir töluvert erfiðara verkefni. Þar tóku á móti okkur FSu, körfuboltaakademían á Selfossi. Tindastóll gisti á Selfossi og voru strákarnir mættir og byrjaðir að skjóta þegar þjálfarinn mætti í hús, greinilega mikill metnaður hjá strákunum sem gaman er að sjá. Tindastóll voru hálf stressaðir fannst manni fyrir leikinn en við fókusuðum á að sýna enga miskunn og ekki sýna þeim of mikla virðingu. Eitthvað virtist þetta kveikja í strákunum því enn og aftur mættu þeir mjög tilbúnir til leiks. Tindastóll gaf ekkert frítt og náðu góðu áhlaupi og breyttu stöðunni úr 2-5 í 15-5. Þetta áhlaup kláraðist með svaðalegum þristi frá Sigga og í leið tóku FSu leikhlé og allt varð tryllt hjá leikmönnum Tindastóls. FSu settu pressu allan völlinn sem gerði Tindastólsmönnum erfitt fyrir, en Einar og Tobbi drippluðu framhjá henni með nokkurri yfirvegun. Munurinn hélst út leikhlutann og leiddum við 24-13 í lok hans. Af 13 stigum FSu voru það þrír þristar frá þeim sem töldu mest, en Tindastóll enn og aftur var að spila hörku vörn. Hákon og Einar skoruðu flottar körfur af mikilli harðfylgni og svo voru það stórar körfur frá Sigga og Tobba sem að héldu okkur í þessum mun.
Annar leikhluti byrjaði að krafti hjá stólunum en það sem fór að einkenna leikinn var skortur á flauti hjá dómurum leiksins, sem þó flautuðu jafn lítið á bæði lið. Bæði lið eru að spila mjög líkamlega vörn og eru að pressa að miklu leiti, svo þegar dómararnir ákveða að það þurfi ekkert að dæma þá verður leikurinn frekar grófur. Það verður að segjast að hlutlaus maður gæti sagt að Tindastóll hafi haft smá heppni með sér í þessum leikhluta, það sem skyldi að var að stóru skotin okkar duttu niður, meðan FSu komst lítið í gegnum okkar sterku vörn. Einar hélt uppteknum hætti og braust í gegnum vörn FSu aftur og aftur. Tobbi og Siggi settu svo 10 stig í röð (5 hver), ja fyrir utan eina körfu heimamanna, til að klára leikhlutann. Tvö frábær áhlaup í hálfleiknum sem gerðu það að verkum að í hléinu var staðan orðin 45-27 fyrir Tindastól. Ekki má gleyma því að hrósa Rúnari sem spilaði á slæmum hnjám, að þegar mest þurfti í þessum leikhluta spiluðu Einar og Rúnar pick and role (ala Karl Malone og John Stocton style) og skoraði hann fjögur góð stig á erfiðum kafla sóknarlega.
Þriðji leikhlutinn var erfiður. FSu gengu á lagið hvað varðaði dómgæsluna og spiluðu rosalega villuvörn, Tindastóll skoraði eina þriggja stiga körfu á annarri mínútu og svo ekkert fyrr en sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum, á meðan höfðu FSu náð muninum niður í 10 stig og var pressan þeirra að virka. Líklega að mestu leiti vegna þess að ekkert var dæmt. Leikmenn Tindastóls létu þetta fara í taugarnar á sér og voru alveg hættir að spila sinn leik. Leikhlé var tekið eingöngu til að róa niður leikmenn Tindastóls og þjálfarinn nýtti tækifærið til að væla aðeins í dómörunum. Eitthvað virtist pásan fara vel í strákana og fórum við aftur að spila eins og menn og náðum 10 stiga muninum aftur upp í þægilegan 15 stiga mun, 59-44.
Þessi leikhluti var mjög mikilvægur og frábært að sjá að strákarnir höfðu karakter til að halda muninum og missa þetta ekki frá sér.
Fjórði leikhlutinn byrjaði með sömu pressu frá FSu en eitthvað var “vælið” frá þjálfaranum farið að ná til dómaranna því eitthvað var blásið loksins í flautuna. Tobbi fór mikinn í stigaskorinu í leikhlutanum og var að fá easy lay-up eftir frábæra vörn okkar. Tindastóll kláraði leikinn á fjórðu mínútu þessa leikhluta þegar þeir náðu 8-0 áhlaupi á tveggja mínútna kafla og komu sér í stöðuna 71-49. Þegar hingað var komið fóru þeir hægt og rólega útaf sem mest höfðu spilað, allir fengu smá action í lokinn og silgdum við þessum sigri í höfn, 77-58.
Leikurinn var góður í alla staði, allir lögðu sitt af mörkum og þeir sem spiluðu minna spiluðu góða vörn þegar þeir voru inná. Það sem var best hjá Tindastól var að þeir fóru ekki á þeirra level í leiknum, þeir spiluðu yfirvegað þegar þurfti og fóru ekki í ótímabær skot þegar FSu setti í pressu. Í leiknum voru dæmdar samtals 19 villur og eingöngu 7 á Tindastól, í leik sem hefði mátt dæma 50 villur. Til að vinna svona leiki þarf blóð svita og tár. Og það var það sem við fengum, Sigga blæddi óhóflega á völlinn eftir einn feitann olboga, Einar var klóraður til blóðs á öllum stöðum líkamans, Hákon fór útaf með bakmeiðsli og allir svitnuðu eins og vitleysingar. Engin tár sá ég en Einar var svo ánægður að ég held að mögulega hafi eitt gleðitár sloppið út eftir leikinn.
Lokatölur leiksins voru: 77-58.
1.(24-13) 2.(21-14) 3.(14-17) 4.(18-14)
Stigahæðstu menn: Tobbi (23), Einar Bj. (17), Sigurður (17), Hákon (12), Rúnar (6), Pálmi (2).
Bestir hjá FSu voru Alex (17) og Daði (12)
Takk kærlega fyrir góða helgi strákar og gangi ykkur vel í vetur.