Góður sigur gegn liði Augnabliks í kuldanum á Króknum

Aldís María kom liði Stólastúlkna í 2-0 snemma í síðari hálfleik. MYND: ÓAB
Aldís María kom liði Stólastúlkna í 2-0 snemma í síðari hálfleik. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og Augnabliks mættust í Lengjudeildinni í knattspyrnu á Króknum í kvöld. Leikurinn var bragðdaufur framan af en gestunum gekk betur að nota boltann þó ekki hafi þeir skapað mikla hættu við mark Stólanna. Föst leikatriði reyndust heimastúlkum drjúg og snemma í síðari hálfleik var ljóst að Stólastúlkur tækju stigin þrjú. Lokatölur 3-0 og Stólastúlkur deila nú efsta sæti deildarinnar með liði FH sem á leik til góða.

Það var kalt, blautt og norðangola meðan á leik stóð en það virtist ekki koma mikið að sök. Stólastúlkum gekk þó heldur verr að vinna með boltann enda oft á tíðum erfitt að senda langa og nákvæma bolta við þessar aðstæður. Kópavogsstúlkurnar voru duglegri í stutta spilinu en vörn Tindastóls gefur ekki mörg færi á sér og þannig var það í kvöld. Ísinn var brotinn skömmu fyrir hlé en þá tók Hannah Cade hornspyrnu sem virtist ætla að svífa yfir á æfingasvæðið en María Dögg flengdi hausnum í boltann utarlega í teignum og boltinn sveif yfir alla í teignum og í bláhornið, óverjandi fyrir Herdísi Höllu í marki Augnabliks. Herdís er reyndar aðeins 15 ára gömul og mikið efni en hún er Króksari í báðar ættir; dóttir Jónu Árna Stefáns (fyrrum landsliðsmarkmanns og þjálfara Tindastóls) og Guðbjarts Halla Guðbergs en Bjartur lék lengi með Stólunum. 1-0 í hálfleik.

Hafi gestirnir ætlað að koma baráttuglaðir til leiks þá voru þeir barðir niður í blábyrjun því dómarinn var varla búinn að flauta til leiks þegar Aldís María var búin að bæta við öðru marki fyrir Stólastúlkur. Nú var mikill kraftur í liði heimastúlkna og það kom ekkert á óvart þegar þriðja markið bættist í sarpinn fáeinum mínútum síðar, þá eftir klafs í teignum eftir fast leikatriði og Murr átti síðustu snertinguna áður en boltinn fór í netið. Eftir þetta jafnaðist leikurinn nokkuð en áfram voru Stólastúlkur hættulegri þó svo að gestirnir hafi einnig átti nokkur hálffæri.

Enn sem fyrr var það vörn Tindastóls sem hélt og liðið aðeins fengið á sig fjögur mörk í átta leikjum. Það vantar ekki kraftinn í sóknina en það vantar aðeins upp á gæðin og það er kannski eitthvað sem þarf að skoða þegar leikmannaglugginn opnar á ný. Baráttan og liðsheildin eru í toppklassa og alltaf gaman að sjá liðið leika af krafti og áræðni.

Næsti leikur verður erfiður en þá halda Stólastúlkur í Kaplakrika þar sem lið FH bíður. Hafnfirðingar hafa líkt og Stólastúlkur aðeins fengið á sig fjögur mörk en gengið töluvert betur að skora. Þetta verður eitthvað. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir