Golf í Skagafirði

Kylfingar taka fram kylfurnar með hækkandi sól. Hlíðarendavöllur heillar á Nöfunum. Þar er gott að vera í góðum félagsskap, njóta náttúrufegurðar, kyrrðar og góðrar íþróttar. Félagar í GSS eru þar á sælureit en gestir eru ávallt velkomnir.

Golfklúbbur Skagafjarðar gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu í Skagafirði. Í fyrsta lagi fer fram öflugt barna- og unglingastarf í klúbbnum, í öðru lagi hentar golf sem áhugamál, félagsskapur og heilsubót fyrir fólk á öllum aldri og síðast en ekki síst er golf hluti af ferðamennsku og golfarar heimsækja Skagafjörð gagngert til þess að spila golf. Fjöldi félaga í GSS er á þriðja hundrað.

Nýliðanámskeiðin vinsælu

GSS er góður félagsskapur sem er öllum opinn. Námskeiðið hefst í byrjun júní. Kennt er tvisvar í viku og fá þátttakendur aðgang að golfklúbbnum og þar með vellinum. GSS hefur það að markmiði að gera inngöngu í GSS áhugaverða, með kynningu, námskeiðum og nýliðamótum. Nýliðanefndin og þjálfarar á nýliðanámskeiði hjálpa við skrefið frá því að vera byrjandi yfir í það að spila reglulega á Hlíðarendavelli. Árný Lilja hefur leiðbeint á námskeiðunum og hafa synir hennar verið til aðstoðar. Óhætt er að segja að námskeiðin hafi vakið lukku.

Þann 14. júní ætlar GSÍ að halda "Golfdaginn 2022" í samstarfi við KPMG, PGA og Golfklúbb Skagafjarðar, en þá verður sérstakur kynningardagur á golfvellinum. Boðið verður upp á fræðslu og kennslu, veitingar og margt fleira.

Barna- og unglingastarf

Barna og unglingastarf er blómlegt og fer vaxandi. Sumaræfingar eru á virkum dögum júní – ágúst og á veturna eru inniæfingar. Þjálfarar okkar eru reyndir kylfingar í GSS og einnig fáum við PGA kennara í heimsókn. Langtímamarkmið í þjálfun barna og unglinga er að skapa áhuga á golfíþróttinni og íþróttum almennt, sem endist ævilangt.

 

Paradís á Nöfunum

Hlíðarendavöllur fær einróma lof þeirra sem hann sækja. Staðsetning vallarins er góð, í göngufæri frá íbúðabyggð og tjaldstæðum bæjarins sem hefur marga augljósa kosti. Hlíðarendavöllur er Paradís á Nöfunum. Útsýni er inn og út fjörðinn með fagra fjallasýn. Dýrahljóð setja sinn ljóma á völlinn. Fuglarnir syngja, en kannski ekki alltaf þeir fuglar sem kylfingar vilja að syngi. Muggur vallarstjóri hefur ásamt sumarstarfsmönnum unnið afrek við að halda vellinum í góðu ástandi og tækjum gangandi.

Félagsmenn nýta golfskálann mikið í tengslum við blómlegt mótahald og samkomur tengdar golfinu. Yfir sumartímann er starfsmaður alla daga í skálanum. Þar er hægt að kaupa veitingar og virða fyrir sér náttúrufegurðina og fólkið sem arkar eftir golfvellinum.

 

Golf og ferðamennska

Kylfingar á Íslandi eru vel yfir 20 þúsund manns. Margir kylfingar taka golfsettið með þegar þeir ferðast um landið. Við í GSS státum af góðum velli í fallegu umhverfi. Við bjóðum upp á fjölda móta fyrir börn og fullorðna þar sem við fáum gesti víðs vegar að. Konur í GSS standa fyrir árlegu golfmóti fyrir konur á Norðurlandi sem nýtur mikilla vinsælda.

GSS hefur eignast vinaklúbba um land allt, en félagsmenn þeirra fá afslátt þegar þeir spila hjá okkur og gagnkvæmt. Við gerum okkur vonir um að kylfingar vinaklúbba muni heimsækja Skagafjörð í auknum mæli á komandi árum til að glíma við völlinn fagra og njóta alls hins góða sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða. Skagafjörður er áfangastaður kylfinga.

Sigríður Svavarsdóttir,
formaður GSS, formadur@gss.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir