Gömlu kellurnar í jólaskapi
Ferðinni var heitið á Hóla í Hjaltadal, þar sem gömlu kellurnar fengu aðstöðu í Nýjabæ. Eftir mikið brölt og örlítinn snjómokstur tókst þeim að hafa allt tilbúið áður en gesti bar að garði. Þær lentu í smávægis vandræðum með útikertaljósið en voru þá svo heppnar að fá aðstoð frá myndarpilti sem var svo vænn að tendra ljósið fyrir þær.
Það var góð mæting á Hólum og allur aldur á gestum. Það voru líka allir voða stilltir og þægir og hlustuðu á gömlu kellurnar lesa jólasöguna, Jólasveinar Grýlusynir, sem kemur úr smiðju Kómedíuleikhússins. En það eru þau Elfar Logi Hannesson og Soffía Vagnsdóttir sem eru höfundar verksins. Eftir lesturinn fengu allir piparkökur og Svala. Síðan héldu kellurnar áleiðis á næsta áfangastað sem var Hofsós. Þar fengu þær aðstöðu í Konungsverslunarhúsinu, Vesturfarasetrinu. Þær voru nú reyndar frekar heppnar því þær keyrðu nærri því á stærðarinnar snjóskafl. En landslagið á Hofsósi getur haft þau áhrif að bílstjórar geta gleymt sér, sérstaklega þegar gamlar kellur eru við stýrið. Það var ágætis mæting á Hofsósi og allir til fyrirmyndar. Gömlu kellurnar lásu jólasöguna og gáfu piparkökur og Svala, því allir voru svo prúðir og stilltir.
Gömlu kellurnar verða í jólaskapi í dag á Löngumýri kl.18.00 og ættu allir krakkar að drífa sig þangað.
