Gönguferð að Skiphóli og Reykjafossi í kvöld
feykir.is
Skagafjörður
18.06.2014
kl. 17.52
Kvenfélag Seyluhrepps stendur fyrir gönguferðum um nánasta umhverfi í sumar. Markmið gönguferðanna er að þátttakendur njóti síns nánasta umhverfis og náttúru og uppgötvi perlur sem þeir áður vissu ekki af í skemmtilegum félagsskap.
Ferðirnar eru fyrir alla, unga sem aldna, konur og karla. Áformað er að ganga annað hvert miðvikudagskvöld í sumar. Í kvöld er ferðinni heitið að Skiphóli og Reykjafossi. Þeir sem vilja koma með í ferðina mæta kl 20 við Alþýðulist í Varmahlíð og sameinast í bíla. Það er um að gera að taka sundföt með í þessa ferð og prófa Fosslaugina eftir gönguferðina.