Gott veður á Skagaströnd í febrúar

Skagstrendingar eru ánægðir með veðurlagið sem þeir hafa búið við í vetur en á vef Skagastrandar segir að tölur frá hinni óopinberu veðurstofu sveitarfélagsins sem sett var á laggirnar til að staðfesta megi með rökum að óvíða er veður betra, sanni það.

Samkvæmt veðurstofu Skagastrandar mældist meðalhiti á Skagströnd í febrúar 1,4 gráður. Hæst fór hitinn í 9,8 gráður þann 11. febrúar kl. 14:50. Raunar var mjög hlýtt allan þann dag, meðalhitinn var 7,5 gráður og 5 gráður daginn eftir.

Kaldast var fyrri hluta mánaðarins og var frost alla átta fyrstu daganna. Lægst fór hitinn í -6,3 gráður þann 8. febrúar um kl. 2 um nóttina. Hélst frostið þá í um sex gráður en hjaðnaði eftir því sem leið á morguninn. Um hádegið var hitastigið komið upp í frostmark. Það sem eftir lifði mánaðarins frysti að vísu af og til en meðaltalið hélst þó alltaf yfir frostmarki.

Veðrið er lítt skemmtilegt til umræðu ef ekki væri fyrir samanburðinn. Þess vegna er ekki úr vegi að skoða hvað systurstofnunin Veðurstofa Íslands segir um febrúarveðrið. Sú stofnun hefur lengi langt fyrir sig veðurathuganir og þykir bara nokkuð ábyggileg á sínu sviði, sérstaklega hvað varðar athuganir á liðnum tíma, en lakari með spár, sérstaklega langtíma. Af handahófi grípum við hitatölur frá nokkrum stöðum.

Staður Hiti

  • Stórhöfði            3,4
  • Höfn í Hornafirði    2,8
  • Reykjavík            2,1
  • Skagaströnd    1,7
  • Stykkishólmur    1,3
  • Bolungarvík    0,9
  • Egilsstaðir            0,3
  • Akureyri            0,1
  • Hveravellir        -3,9

 

Af þessum tölum má draga þá ályktun að kaldara er á austanverðu Norðurlandi en á því vestanverðu. Hitastigið er svipað á Reykjavík, Stykkishólmi og Skagaströnd.

Hitinn á Skagaströnd er líklega í rökréttu samhengi við aust- og suðlægar áttir sem voru ríkjandi í febrúar.

Nánar á Skagaströnd.is

Fleiri fréttir