Guðmar Freyr Magnússon valinn í U21 landsliðshóp LH

Hekla Katharína Kristinsdóttir landsliðsþjálfari hefur valið knapa í U21-landsliðshópi Landsambands hestamanna fyrir árið 2021, en framundan er Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Herning í Danmörku í byrjun ágúst. Knapar í landsliðshópum LH eru í forvali þegar kemur að landliðsverkefnum en einnig er landsliðsþjálfara heimilt að velja knapa utan hópsins þegar þurfa þykir.

Á heimasíðu LH kemur fram að úrtakið sé stórt og mikið af frambærilegum unglingum og ungmennum sem sýna mikinn metnað og góða frammistöðu. Skagfirðingar eiga sinn fulltrúa í landsliðinu þar sem Guðmar Freyr Magnússon á Sauðárkróki var valinn en hann er efstur á stöðulista ungmennaflokks í fimmgangi á Snillingi frá Íbishóli. Guðmar er fæddur árið 2000, sonur Valborgar Hjálmarsdóttur á Sauðárkróki og Magnúsar Braga Magnússonar á Íbishóli en þar stundar Guðmar tamningar og þjálfun.

Á lhhestar.is segir að við val á knöpum í landsliðshópa LH hafi verið tekið tillit til árangurs í keppni, reiðmennsku, hestakosts og íþróttamannslegrar framkomu. Landsliðsþjálfari vegur og metur knapana eftir árangri þeirra en ekki síður hestakosti árið 2021 og stillir hópnum þannig upp að styrkleikar séu í öllum greinum íþróttakeppninnar sem keppt er í á íslenska hestinum.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir