Guðni Þór hættir með Stólastúlkur

Guðni Þór að loknum síðasta leiknum með Stólastúlkum. MYND: ÓAB
Guðni Þór að loknum síðasta leiknum með Stólastúlkum. MYND: ÓAB

Það er komið að tímamótum hjá kvennaliði Tindastóls í knattspyrnu því Guðni Þór Einarsson sem þjálfað hefur liðið undanfarin ár, fyrst í félagi við Jón Stefán Jónsson tímabilin 2018-2020 og nú í sumar með Óskari Smára Haraldssyni, lætur nú af störfum en hann er að flytja sig um set suður yfir heiðar. Með Guðna við stýrið hefur lið Tindastóls náð einstæðum árangri í knattspyrnusögu félagsins.

Guðni segir að eftir 25 ár samfleytt sem leikmaður, þjálfari, foreldri og fyrst og fremst stuðningsmaður Tindastóls sé komið að leiðarlokum. „Ég vil þakka leikmönnum og meðþjálfurum síðustu ára kærlega fyrir frábæra tíma og ég óska ykkur alls hins besta á komandi tímum. Ég vill þakka þeim stjórnarmönnum sem hafa sýnt mér traust fyrir liðinu, kvennaráði fyrir frábært samstarf [...] og ykkur stuðningsmönnum fyrir frábæran stuðning síðustu ár. Áfram Tindastóll!“

Saman komu Jónsi og Guðni liði Tindastóls upp í næstefstu deild 2018, liðið endaði í þriðja sæti sumarið eftir og sigraði síðan Lengjudeildina með glæsibrag síðastliðið sumar og tryggði sér sæti í efstu deild. Hann stýrði síðan liði Tindastóls í Pepsi Max deildinni í sumar í félagi við Óskar Smára.

Knattspyrnudeild Tindastóls vill koma á framfæri þökkum til Guðna fyrir ómetanlegt starf í þágu deildarinnar og sérstaklega kvennaboltans síðustu ár og óskar honum velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur.

 Viðtal við Guðna Þór birtist á Feyki.is í kvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir