Gunnar Þór nýr formaður Ungmennasambands Skagafjarðar

Þau Gunnar og Sara fengu bæði starfsmerki UMFÍ á þingi UMSS í fyrravor. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti þeim merkin. Mynd: umfi.is.
Þau Gunnar og Sara fengu bæði starfsmerki UMFÍ á þingi UMSS í fyrravor. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti þeim merkin. Mynd: umfi.is.

Gunnar Þór Gestsson var í gær kjörinn formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) á ársþingi sambandsins sem fram fór með rafrænum hætti á lendum Internetsins. Tekur hann við formannssætinu af Klöru Helgadóttur, sem gegnt hefur starfinu síðastliðin tvö ár, og Sara Gísladóttir var á sama tíma kjörin varaformaður og fyllir þar með skarð sem Gunnar Þór skildi eftir en hann sat í varaformannsstólnum áður.

Á Umfi.is kemur fram að dagskrá þingsins hafi verið að flestu leyti hefðbundin. Fyrir því lá aðeins ein tillaga,  fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Gunnar segir þingfulltrúa hafa verið um 35, sem sé ágætt við núverandi aðstæður en á þingi UMSS í fyrra hafi þeir verið 40.

Undirbúið fyrir Unglingalandsmót UMFÍ
Gunnar segir í færslu UMFÍ að mikið starf sé í gangi hjá UMSS og grasrótinni á sambandssvæðinu. Framundan í starfi UMSS sé undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki en það hafi átt að halda á þessu ári á Selfossi og á Sauðárkróki sumarið 2021. COVID-faraldurinn hafi hins vegar valdið því að öll mót UMFÍ hafi frestast um ár. Unglingalandsmót UMFÍ verði því á Selfoss um verslunarmannahelgina 2021 og á Sauðárkróki 2022.

„Gunnar Þór  hefur verið viðloðandi íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna frá unga aldri. Hann æfði og lék m.a. fótbolta með Tindastóli upp alla yngri flokkana ásamt því að spila með meistaraflokki. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, verið formaður U.M.F. Tindastóls og hefur verið varaformaður UMSS frá árinu 2018. Gunnar Þór tók sæti í stjórn UMFÍ á sambandsþingi 2019.

Sara hefur verið formaður Ungmenna- og íþróttafélagsins Smára í Varmahlíð, sem er aðildarfélag UMSS, síðastliðin ár og setið í stjórn félagsins. Hún hefur m.a. haldið utan um sumarnámskeið Smárans sem hafa verið afar vel heppnuð og vel sótt. Sara hefur einnig verið afar virk í félagsmálum fyrir Hestamannafélagið Skagfirðing ásamt fleiri félögum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir