Hættum að tala niður til barna og ungmenna | Ómar Bragi Stefánsson skrifar

Ómar Bragi Stefánsson. MYND AF NETINU
Ómar Bragi Stefánsson. MYND AF NETINU

Mikið afskaplega er ég orðinn þreyttur á umræðunni og stórum fyrirsögnum um hvað börn og ungmenni eru vonlaus, og þá sérstaklega drengir. Kunna ekkert, geta ekkert og verða ekkert.

Það er ömurlegt að horfa og hlusta á fullorðið fólk tala svona til þeirra, jafnvel fólk í ábyrgðarstöðum í samfélaginu sem vill láta taka sig alvarlega. Þessi umræða er ekki til þess fallin að byggja upp eða styðja við þau sem á þurfa að halda. Þessi umræða hefur verið og er til skammar hjá öllum þeim sem svona hafa talað, margir að apa vitleysuna hver eftir öðrum, gagnrýnislaust.

Það er svo einfalt að þykjast vita allt og hafa svör við öllu, dæma aðra og reyna að upphefja sig, eða skella fram fullyrðingum sem standast ekki nánari skoðun eða innihalda ekkert nema fordóma.

Ég hef alla mína tíð verið svo lánsamur að vinna með börnum og ungmennum og tel það algjör forréttindi. Ég fullyrði að við eigum gríðarlega flotta einstaklinga sem eru frábærar fyrirmyndir. Við getum horft til íþrótta, tónlistar, leiklistar, kvikmyndagerðar, iðngreina og fjölmargra annarra skapandi greina, alls staðar er ungt fólk að skara fram úr bæði hér heima en ekki síður erlendis.

Alls staðar eigum við og sjáum ungt fólk sem er að standa sig afburða vel á öllum sviðum. Tölum um þetta frábæra fólk, fyrirmyndir sem litið er upp til.

En eflaust er hægt að gera betur í uppeldi barna okkar og ungmenna. Kannski ættum við, foreldrar og fullorðið fólk að líta í eigin barm og skoða þann tíma sem við höfum verið með og erum með börnum og ungmennum. Erum við kannski svo upptekin í eigin búbblu að við gleymum þeim og setjum þau ekki í fyrsta sæti ?

Hættum að benda eingöngu á kennara sem einhverja blóraböggla, þeir eiga betra skilið. Hættum að tala niður til barna og ungmenna og þykjast vera með lausnir á öllu sem þeim viðkemur, þau eiga annað og betra skilið. Það vex sem við veitum athygli. Tölum börnin okkar og ungmenni upp en ekki niður!

Ómar Bragi Stefánsson

Fleiri fréttir