Hafist handa við Sundlaug Sauðárkróks

Fyrir byggðaráði Skagafjarðar liggur tillaga um að hafinn verði undirbúningur að enduruppbyggingu Sundlaugar Sauðárkróks á núverandi stað í hjarta bæjarins, ásamt leik- og útivistarsvæði. Ennfremur að Sveitarfélagið setji framkvæmdinni fjárhagslegan ramma og almenna umgjörð, en skoðað verði að gefa íbúum kost á að taka þátt í hugmyndavinnu við verkefnið.

Sundlaug Sauðárkróks „forgangsverkefni“ í 20 ár

Þrátt fyrir að sundlaugin hafi í hartnær tvo áratugi verið skilgreind sem forgangsverkefni í nýframkvæmdum hjá sveitarfélaginu, hafa á þeim tíma önnur verkefni ávallt lent framar í röðinni þegar til á að taka. Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir 5 milljónum króna til undirbúnings slíkri vinnu. Verkefnið dagaði hinsvegar uppi með meirihlutaskiptum vorið 2014. Fjárheimildinni var þó haldið inni í áætlun þessa árs og væntingar um að verkefninu yrði fylgt eftir. Það er hinsvegar komið fram á mitt sumar án þess að þessu verkefni hafi verið hreyft að frumkvæði núverandi meirihluta sveitarstjórnar og að óbreyttu  hætta á því að Sundlaug Sauðárkróks gleymist einu sinni enn. Með þessari tillögu minni er tekið af skarið með undirbúning þess að hafist verði handa við enduruppbyggingu sundlaugarinnar á núverandi stað, ásamt leik- og útisvæði. Í Feyki 6. mars 2014 birtist grein eftir undirritaðan um sama efni, en málið tekið hér upp aftur til að fylgja tillögunnni eftir og hvetja fólk til dáða og láta verkin tala.

Sú vinna þarf að hefjast núna

Sundlaug Sauðárkróks er barn síns tíma og margt sem ekki stenst þær nútíma kröfur sem samfélagið gerir til sundlauga.  Fatlaðir geta í dag ekki nýtt laugina,  barnafólk fer annað í leit að "barnvænni" laug og eins og glöggir vegfarendur gætu hafa séð helgina 27.-28. júní , þegar raðir mynduðust út að bílastæðum laugarinnar, þá annar hún ekki nægjanlega vel þeim aukna fjölda ferðamanna sem sækja svæðið heim. Margvíslegir möguleikar eru á að búa svæðið  heitum pottum, vaðlaugum, rennibrautum og öðrum leiktækjum. Litla vatnaveröld þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort heldur er til leikja og samveru fjölskyldunnar, sundæfinga, eða slökunar og endurhæfingar. Það er fyrir löngu kominn tími til að ráðast í endurbætur og byggja upp sundlaugarsvæðið þannig að það þjóni sem best óskum íbúa og gesta í dag, með bættu aðgengi og fjölbreyttari notkunarmöguleikum. Sú vinna þarf að hefjast núna.

Bjarni Jónsson
oddviti VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir