Hafnfirðingar stálu stigi á Blönduósi

Það var hátíð í bæ á Blönduósi í dag þegar Kormákur/Hvöt spilaði fyrsta leikinn þetta sumarið á alvöru heimavelli. Það voru Haukar úr Hafnarfirði sem skutust norður í sumarið og þeir höfðu eitt stig upp úr krafsinu, stig sem að alhlutlausum heimamönnum þóttu þeir ekki eiga skilið. Lokatölur 1-1 og Húnvetningar í áttunda sæti með fjögur stig líkt og Þróttur úr Vogum en með betri markatölu.

Heimamenn fóru vel af stað í leiknum og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og óheppnir að skora aðeins eitt mark. Mark sem markvörður Hauka gerði reyndar þegar hann ætlaði að grípa fyrirgjöf en flumbraði boltanum í eigið mark eins og segir í textalýsingu á Aðdáendasíðu Kormáks. Staðan 1-0 í hálfleik.

Leikurinn jafnaðist í síðari hálfleik en á 62. mínútu jafnaði Daði Snær Ingason metin með marki úr vítaspyrnu. Dómarinn hafði reyndar fyrst dæmt aukaspyrnu en aðstoðardómari taldi brotið hafa verið framið innan teigs og víti því niðurstaðan við litlar vinsældri alhlutlausra stuðningsmanna Kormáks/Hvatar. Á lokakafla leiksins fengu bæði Goran og Jorge góð færi til að næla í öll stigin fyrir heimamenn en Hjálmar varði meistaralega í marki Hauka og bætti upp fyrir flumbrumarkið.

Það er næsta víst að leikmenn Kormáks/Hvatar þurfa að kjósa utankjörstaðar í forsetakosningunum því þeir þurfa að skjótast austur á Egilsstaði á kjördag en þar bíður þeirra lið Hattar/Hugins á VIlla Park. Mikilvægur leikur þar sem þeir Austlendingar eru sæti ofar en Húnvetningar og ráð að skjóta þeim ref fyrir rass.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir