Hakk, kjúlli og Lava bomba

Matgæðingarnir Kristín og Ólafur. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Kristín og Ólafur. Aðsend mynd.

Matgæðingar vikunnar í 14. tbl. Feykis 2017 voru þau Ólafur Rúnarsson og Kristín Kristjánsdóttir á Hvammstanga. „Við fluttum í Húnaþing vestra fyrir nokkrum árum og erum bæði starfandi tónlistarskólakennarar og tónlistarmenn. Það var mikið gæfuspor að flytja hingað  því hér er gott að vera,“ segir Ólafur en þau hjónin búa á Hvammstanga. „Ekki ætlum við að koma með uppskrift að þriggja rétta máltíð þar sem svoleiðis gerist sjaldan hjá okkur. Frekar ætlum við að deila með ykkur réttum sem vinsælir eru á okkar heimili." 

RÉTTUR 1
Eins potts hakk og pastaréttur

Þessi er gerður í miklu magni, því gott er að eiga hann í skápnum og hita upp í flýti þegar fjölskyldumeðlimir eru á ferð og flugi og lítill tími gefst til matreiðslu. 

1 kg hakk
2 rauðlaukar
2 paprikur
1 bakki sveppir
1 dós saxaðir tómatar
2 dósir (litlar) tómatpúrra
1 l sjóðandi vatn
kjöt- og grænmetiskraftur eftir smekk
400-500 g orzo pasta (í laginu eins og hrísgrjón og fæst aðeins í Istanbul market í Ármúla. Það er í lagi að nota annað pasta, t.d. makkarónur eða bara hrísgrjón)
u.þ.b. 350 ml rjómi 

Aðferð:
Kryddið hakkið að vild og steikið í stórum potti, bætið síðan söxuðum rauðlauk, papriku og sveppum út í. Blandið vel saman og setjið saxaðan tómat og tómatpúrru saman við, látið malla í svolitla stund. Bætið síðan við einum lítra af sjóðandi vatni ásamt kjöt- og grænmetiskrafti eftir smekk, skellið síðan orzo pastanu út í. Bætið síðan við rjóma og látið sjóða eins lengi og stendur á pastapakkanum. Verið dugleg að hræra í pottinum. Berið fram með hvítlauksbrauði og nýrifnum parmesan osti. 

RÉTTUR 2
Chorizo kjúklingur

Þegar kjúklingur er fylltur, þá eldast hann jafnar, bringurnar, sem taka styttri tíma í eldun, þorna síður. Þennan kjúkling höfum við margoft gert. 

1 kjúklingur
½ bréf chorizo áleggssneiðar
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif, pressuð
timian, salt og pipar
nokkrir sólþurrkaðir tómatar
1 dós cannellini baunir (má nota kjúklingabaunir ef hinar fást ekki)
sítróna eða mandarína
paprikuduft, salt og pipar
½ l vatn (rúmlega)
kjúklingakraftur.

Aðferð:
Brytjið niður áleggssneiðarnar og steikið á í olíu á pönnu ásamt fínt skornum rauðlauk, hvítlauk, timian, salti, pipar og sólþurrkuðum tómötum. Bætið síðan við einni dós af cannellini baunum, látið renna af þeim áður. Saltið og piprið kjúklinginn að innan áður en fyllingin er sett í hann og lokið með sítrónu eða mandarínu.
Smyrjið olíu á kjúklinginn og nuddið salti, pipar og paprikudufti vel inn í húðina, setjið í eldfast mót ásamt rúmlega hálfum lítra af vatni og kjúklingakrafti. Ef ekki er pláss fyrir alla fyllinguna inni í kjúklingnum set ég hana í minna eldfast mót (t.d soufflé skálar) og set við hlið kjúklingsins. Lokið með álpappír eða loki eldfasta mótsins. Bakið í klukkutíma við 180°, takið lokið/álpappírinn af og bakið í hálftíma í viðbót.
Er úr ofni er komið, takið kjúlinginn úr fatinu og leyfið honum að hvílast á meðan þið kreistið mandarínuna/sítrónuna saman við vökvann í fatinu, hrærið og sigtið. Fjarlægið fyllinguna og setjið í skál og bleytið aðeins í henni með vökvanum, setjið restina af honum í sósuskál. Oftast höfum við hrísgrjón og hvítlauksbrauð með þessum rétti. 

EFTIRRÉTTUR
Súkkulaði Lava bomba

Við erum ekki mikið fyrir eftirrétti, en það kemur fyrir að við gerum franska súkkulaðisprengju. 

2 dl sykur
4 egg
1 dl hveiti
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði
salt og vanilludropar.

Aðferð:
Þeytið eggjum og sykri mjög vel saman, bætið síðan hveitinu varlega saman við. Smjör og súkkulaði brætt saman yfir vatnsbaði. Blandið svo öllu saman ásamt nokkrum vanilludropum og ögn af salti.
Setjð í litlar, vel smurðar eldfastar skálar og bakið við 170° í nokkrar mínútur (5-9 mín eftir stærð mótanna), passið að fylla ekki mótin nema að 3/4. Berið fram með ískúlu og sterku kaffi.
Sömu uppskrift má nota til þess að baka eina stóra köku, smyrjið þá springform og bakið í 30 mínútur. Látið kólna. Bræðið síðan 150 g suðusúkkulaði, 70 gr smjör, 2 msk sýróp og matskeið af instant kaffi má fljóta með ef fólk vill. Hellið yfir kökuna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir