Haldið upp á sjómannadaginn í 85. sinn á Skagaströnd

Sjómannadagurinn er um helgina og það er haldið upp á hann alls konar. Það verður hátíðardagskrá á Hvammstanga sunnudaginn 2. júní og þá munu Hofsósingar sömuleiðis fagna deginum á hefðbundinn hátt. Á Króknum verður SjávarSæla laugardaginn 1. júní en mesta hátíðin verður venju samkvæmt á Skagaströnd en það má segja að Skagstrendingar búi til bæjarhátíð úr sjómannadeginum.

Sú hátíð kallast Hetjur hafsins og stendur yfir í heila fjóra daga og hefst nú seinni part fimmtudags en þá eru íbúar hvattir til að skreyta húsin sín og fuglaskoðunarhúsið á Spákonufellshöfða verður formlega opnað kl. 17.

Flestir þessara viðburða eru auglýstir í Sjónhorninu en einnig má forvitnast um þá á netsíðum sveitarfélaganna. Það er Helena Mara Velemir sem er verkefnastjóri Hetja hafsins og hún segir dagskrána hefjast hægt og rólega á fimmtudagskvöldi sem lýkur seinni partinn á sunnudag. „Dagskráin er fjölbreytt og ætti að ná til fólks á öllum aldri. Við erum að tala um tónleika, litahlaup, pub quiz, tónlistarbingó, dansleik, hoppland, loftbolta, perlað af krafti, flugdrekasmiðju, töfrasýningu, messu, kaffihlaðborð, kayaka, skemmtisiglingu, kappróður, sjóleiki, port party og margt fleira,“ segir Helena.

Eru Skagstrendingar duglegir að taka þátt í dagskránni? „Já, sjómannadagurinn hefur verið ómissandi hefð á Skagaströnd í langan tíma og í ár erum við að halda upp á hann í 85. skipti.“

Er nágrönnum velkomið að kíkja í heimsókn á Skagaströnd og njóta dagskrárinnar með heimamönnum? „Við bjóðum alla nágranna okkar hjartanlega velkomna til að njóta hátíðarinnar með okkur, það væri gaman sjá sem flesta. Ég mæli með að fólk komi og verði hjá okkur yfir helgina hér er frábært tjaldsvæði og fullt af afþreyingu í boði. Það er frisbígolfvöllur á tjaldsvæðinu og flott leiktæki fyrir börnin. Við erum með eina krúttlegustu sundlaug landsins og frábæran veitingastað á höfninni. Síðan má skella sér í golf eða kíkja í nýja fuglaskoðunarhúsið okkar sem verður formlega opnað þessa helgi. Fyrir þá allra hugrökkustu sem vilja skyggnast inn í framtíðina eða vita meira um fortíðina þá geta þeir heimsótt Spákonuhof.

Er Skagaströnd sjóarabær? „Já, það er óhætt að segja það!“ segir Helena Mara að lokum.

Það er óhætt að hvetja íbúa Norðurlands vestra til að taka þátt í sjómannadeginum og gera sér glaðan dag – eða öllu heldur daga – í sumarbyrjun.

- - - - -
Dagskrá | Hetjur hafsins á Skagaströnd >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir