Hálka á heiðum
Það var nánast tími fyrir hið alíslenska föðurland í morgun, jaðraði við að það væri slydda í byggð og hiti víðast hvar rétt ofan við frostmark hér á Norðurlandi. vestra. Samkvæmt spá Veðurstofunnar verður svalt fram yfir hádegi en þá mjakast hitamælirinn upp á við og sólin hrekur úrkomuna burtu. Ferðalangar ættu að hafa það í huga að hálka er á fjallvegum og jafnvel éljagangur ef ekki hreinlega snjókoma.
Á umferðarvef Vegagerðarinnar má sjá að hálka er á Holtavörðuheiði, Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Éljagangur er á Holtavörðuheiði og Þverárfjalli en Veðurstofan gerir ráð fyrir snjókomu á Öxnadalsheiði nú fyrir hádegi. Þannig að það er vissara að fara að öllu með gát.
Í frétt í gærkvöldi sagði Feykir frá því að veðurstofur gerðu ráð fyrir allt að 14 stiga um helgiina en heldur hafa þær tölur nú farið lækkandi. Engu að síður er ekki vetur í kortunum næstu tíu dagana og í raun spáð mildu haustveðri.