„Handavinna hefur alltaf gefið mér mikla ró og segja má að hún næri í mér sálina“

Lilja býr ásamt manni sínum Val Valssyni og Ásrúnu dóttir þeirra í Áshildarholti. Þó það séu kannski ekki hannyrðir en þá gerðum þau hjónin húsið upp ásamt góðu fólki, en föðuramma Lilju átti húsið og þar finnst þeim dásamlegt að vera.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?

Eiginlega bara frá því að ég man eftir mér, en ég snerti samt ekki prjónana í nokkur ár, þó ég sé sjaldnast án þeirra núna. Það má eiginlega segja að ég hafi byrjað að prjóna aftur vorið 2017, en þá vorum við erlendis á sjúkrahúsi með Völu Mist, yngri dóttur okkar og dagarnir áttu það til að líða ansi hægt. Vinkona mín ásamt fleirum stofnuðu á þeim tíma hóp sem heitir “Svöl sjöl” á Facebook og fann ég hvernig ég lifnaði við þegar ég fór að skoða sjölin sem snillingarnir þar inni voru að prjóna og fann löngun til að byrja prjóna aftur. Ég fann því prjónabúð ekki langt frá sjúkrahúsinu, keypti garn í sjal og var þá ekki aftur snúið, en handavinna hefur alltaf gefið mér mikla ró og segja má að hún næri í mér sálina. Sjalaprjón var líka tilvalin leið til að byrja prjónið aftur, þar sem prjónafesta skiptir ekki öllu máli og því er maður laus við prjónfestuprufurnar.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust?

Ég ætla rétt að vona að mér megi finnast fleiri en ein týpa af handavinnu skemmtilegust, ef ekki verð ég bara að brjóta reglurnar. Ég er mikil skorputýpa og fæ æði fyrir alls konar. Ég hef gaman af því að sauma út, krosssaum, silkiborðasaum og fríhendis útsaum. Ég dett í það að sauma flíkur af og til, hekla og prjóna. Allt finnst mér skemmtilegast, þó ég kannski prjóni mest þessa dagana.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?

Ég get ekki haft bara eitt verkefni í gangi í einu, en er þó bara að hekla teppi, prjóna sjal og prjóna peysu á Ásrúnu, svo ég er með nokkuð stuttan verkefnalista miðað við vanalega.

Hvar færðu hugmyndir?

Mér finnst rosalega gaman að sjá hvað aðrir gera á samfélagsmiðlum og er ég því í alls konar handverksgrúbbum. Ég fylgi líka nokkrum aðgöngum sem sýna frá handverki og fæ innblástur þaðan. Svo á mig til að dreyma mynstur eða uppskriftir. Seinasta dæmi um það eru vettlingar sem ég prjónaði handa Vöndu Sig. frænku Vals, en ég vildi endilega senda henni smá hlýju eftir það sem mér fannst vera ósanngjörn umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þegar hún tók við sem formaður KSÍ. Það var svo nótt eina þegar litla dúllan sem er væntanleg í apríl vakti mig um miðja nótt með fimleikaæfingum (eða fótboltaspörkum kannski?) að ég var með vettlingamynstur ljóslifandi í huganum, svo ég reif upp símann, teiknaði það upp í excel og prjónaði vettlingana í kjölfarið.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með?

Það er svo margt, en það sem kom upp í hugann núna er sjalið Fantastitch eftir Stephen West sem ég prjónaði handa Völu Báru mágkonu minni. Bæði vegna þess hve gaman það var að prjóna það en líka vegna þess hve innilega ánægð hún var með sjalið, segja má að það hafi verið rúsínan í pylsuendanum, þó ég hafi aldrei smakkað þessháttar pylsu og aldrei fyllilega skilið þetta orðatiltæki.

Eitthvað sem þú vilt bæta við?

Ef þig langar að prófa eitthvað, prófaðu það, í versta falli þarftu að rekja upp nú eða henda því. Það gefur manni svo mikið þegar maður stígur út fyrir þægindarammann og bara prófar, maður getur meira en maður heldur.

Áður birst í tbl. 15 Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir