Hannyrðabók með hekluðum fígúrum og dóti

Þann 16. nóvember sl. kom út bókin Hekla en sú bók er með uppskriftum að hekluðum leikföngum fyrir yngstu kynslóðina og má þar finna uppskriftir af svani, einhyrningi, blómálfi, jólakúlum og margt fleira. Þær henta bæði byrjendum og lengra komnum og er það Elsa Harðardóttir, 34 ára Seyðfirðingur sem býr í Hafnarfirði, sem á heiðurinn af þessari bók.

Í bókinni eru 15 nýjar uppskriftir sem verða einungis í bókinni en einnig eru þar þrjár vinsælar eldri uppskriftir sem fylgja með. Allar uppskriftirnar eru eftir Elsu sjálfa og hafa meðal annars birst uppskriftir eftir hana í erlendum handavinnutímaritum. Aðspurð hvenær áhuginn hafi kviknað á að hekla segir hún að hann hafi komið um leið og hún varð ólétt að dóttur sinni sem hjálpaði henni að þróa uppskriftirnar og hugmyndirnar fyrir bókina.

En hvenær byrjaði þú að hekla? ,,Ég var nýbúin að læra að hekla þegar á skall útgöngubann í Danmörku árið 2020 þar sem ég bjó á þeim tíma. Það er óhætt að segja að heklunálin hafi bjargað covidtímanum fyrir mér.“

Elsa er ekki bara forfallinn heklari heldur er hún iðin við all flesta handavinnu og segist ætla að læra að prjóna fyrir fimmtugt og því nægur tími til stefnu. En það sem henni finnst skemmtilegast að hekla er serían hennar, Fyrirmyndir, og stefnir hún á að gera fleiri gerðir af Fyrirmyndum núna þegar þessi bók er tilbúin og komin í sölu.

Hver var kveikjan að því að gera þessar æðislegu dúkkur? „Vinkona mín gaf dóttur minni heklaða kanínu þegar hún fæddist og mér þótti svo ótrúlega vænt um þessa fallegu gjöf. Hún sefur enn með hana fimm árum seinna. Handgerðir og persónulegir hlutir eldast, að mínu mati, mikið betur en þessir fjöldaframleiddu!"

Ertu að selja þær einhverstaðar? „Nei, ég sel ekki tilbúnar fígúrur. Ég gef þær til barna sem ég þekki og í Míuboxið og á Barnaspítalann.

Hvar er hægt að kaupa bókina? „Hekla fæst í Sölku, verslunum Pennans, í Hagkaupum, Nettó, Bónus, Bókakaffinu Selfossi, Bókaverslun Breiðafjarðar, A4 og fleiri frábærum handavinnubúðum."

Ertu komin með fleiri hugmyndir að bókum? „Algjörlega. Ég er að vinna í alls konar hugmyndum. Hvergi nærri hætt."

Hentar þessi bók fyrir þann sem að kann ekki að hekla en langar að læra? „Fullkomlega! Í hverri uppskrift kemur fram erfiðleikastig og það eru nokkrar hugsaðar fyrir byrjendur! Svo fylgir QR kóði með í bókinni. Þar er hægt að fylgja hlekk þar sem finna má myndbönd á heklaðferðir. Að auki eru fallegar skýringarmyndir í bókinni sem Ylfa Grönvold teiknaði svo fallega fyrir mig."

Feykir óskar Elsu til hamingju með frábæra bók sem vonandi á eftir að rata í harða pakkann hjá hannyrðafólki á Norðurlandi vestra. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir