Haraldur Ægir með Karolinafund - söfnun vegna útgáfu á vínylplötunni Tango For One

Fyrr í þessum mánuði hratt húnvetnski tónlistarmaðurinn Haraldur Ægir Guðmundsson af stað Karolinafund/söfnun upp í framleiðslu á vinyl plötu með nýrri eigin tónlist. Á Facebook-síðu sinni greinir Haraldur frá því að Andrés Þór gítarleikari og Matthías Hemstock hafi unnið tónlistina með honum en upptökum og hljóðblöndun stjórnaði Ómar Guðjónsson.

„Söfnunin fór ágætlega af stað en ennþá mjög langt í land. Mig langar til segja fólki að upphæðin er algerlega valkvæð þrátt fyrir að ég gefi upp nokkra möguleika á stuðningi, og að styrktaraðilar/þátttakendur greiða ekki neitt nema ef markiðið næst og að fjárhæðin er ekki skuldfærð fyrr en/ef markmiðinu er náð,“ segir Haraldur í færslu sinni en honum er umhugað að ná markmiði sínu enda platan mjög vel heppnuð.

„Tango For One er væntanleg vínyl plata með nýrri íslenskri latin jazz hljómsveit, Limp Kid en hana skipa Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar, Matthías Hemstock á trommur og slagverk og Haraldur Ægir Guðmundsson á kontrabassa, sem einnig semur allt efni sveitarinnar,“ segir í kynningu á Karolinafund.

Tango for one er tíunda platan Haraldar, ef taldar eru með tvær plötur í nafni Groundfloor og aðrar sem hann hefur samið efni fyrir, að öllu leyti eins og platan Green með Clazz og Embrace plata Hörpu Þorvaldsdóttur. „Ég hef gefið út undir margvíslegum hljómsveitarnöfnum og bæði með íslenskum og erlendum listamönnum. Tango for one er þriðja platan sem kemur út á vínyl, aðrir titlar eru á CD,“ segir á Karoliafund. Öllum upptökum og hljóðvinnslu Tango for one er að fullu lokið og nú er það bara lokahnykkurinn, að framleiða tónlistina á Vínyl!

Hér fyrir neðan má heyra titillag plötunnar Tango for One. „Ég vona þið sjáið ykkur fært um að vera með,“ segir kappinn og Feykir tekur undir þær óskir.

Tengd frétt: „Dót hrundi úr hillum“ / HARALDUR ÆGIR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir