Háskólalestin heimsækir Skagafjörð

Sauðárkrókur er annar áfangastaður Háskólalestarinnar vorið 2013. Lestin hefur viðkomu á Króknum í dag 17. maí og á morgun, 18. maí. Meðal annars verður boðið upp á leiftrandi vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna.

Föstudaginn 17. maí sækja nemendur úr efri bekkjum Árskóla, Varmahlíðarskóla og Grunnskólanum austan Vatna valin námskeið í Háskóla unga fólksins. Um er að ræða námskeið í eðlisfræði, næringarfræði, japönsku, Vísindavefnum, jarðfræði, stjörnufræði, efnafræði og blaða- og fréttamennsku.

Daginn eftir, laugardaginn 18. maí, er Sauðkrækingum og nærsveitarmönnum boðið í vísindaveislu í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki kl. 12-16. Þar verða vísindin sýnd í lifandi og skemmtilegu ljósi. Meðal þess sem fyrir augu ber er eldorgel og sýnitilraunir, japönsk menning og ungir fréttamenn, teikniróla og furðuspeglar, leikir og þrautir, undur jarðar og himinhvolfs og fjölmargt fleira.

Enn fremur munSprengjugengið landsfræga sýna kl. 12.30 og 14.30 í Fjölbrautaskólanum og sýningar verða í Stjörnutjaldinu á 20 mínútna fresti frá kl. 12.

Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Fleiri fréttir