Háskólinn á Hólum bætir við nemendum á vorönn
Opnað hefur verið fyrir skráningu nýnema á vorönn við Háskólann á Hólum. Þetta er meðal annars gert í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og vill skólinn með þessu leggja sitt af mörkum til þess að skapa ný tækifæri fyrir þá einstaklinga sem nú standa frammi fyrir miklum breytingum. Frestur til að sækja um skólavist fyrir vorönn rennur út 30. nóvember.
Við Háskólann á Hólum er boðið upp á nám í ferðamálafræði, hestafræði, fiskeldisfræði, sjávar- og vatnalíffræði. Atvinnugreinarnar sem Háskólinn á Hólum þjónar vaxa hratt og þörf er á fleira menntuðu fólki til að byggja þær upp. Sérhæfing og gæði einkenna starfið á Hólum. Hestafræðideildin tekur við nemendum á næsta skólaári, en við ferðamáladeild og fiskeldis- og fiskalíffræðideild er nýnemum boðin skólavist í janúar. Þetta eru fög í mikilli sókn og hafa komið til umræðu í þjóðfélaginu síðustu misserin , meðal annars hjá Þorsteini I. Sigfússyni og Ólöfu Ýrr Atladóttur. Þorsteinn I. Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands segir: „Matvælaöryggi miðast við að þjóðin geti sem best brauðfætt sig við allar aðstæður. Þessi þáttur kallar á eflingu matvælaframleiðslu og er fiskeldi, einkum þorskeldi, mjög áhugaverður kostur.“ (Morgunblaðið 18. október 2008 bls. 34). Um ferðaþjónustu segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri: „Ferðaþjónustan hefur um árabil verið ein okkar mikilvægasta atvinnugreina og mun á næstu misserum gegna enn stærra hlutverki en hingað til: sem atvinnuskapandi afl úti um allt land, einn af hornsteinum byggðastefnu í landinu en síðast en alls ekki síst ein stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar.“ (Morgunblaðið 18. október 2008 bls. 34)
Í ferðamáladeild er boðið nám í viðburðastjórnun (diplóma) og ferðamálafræði (diplóma, BA og MA). Unnt er að stunda viðburðastjórnun og diplómanám í ferðamálafræði í fjarnámi.
Í fiskeldis- og fiskalíffræðideild er boðið nám í fiskeldisfræði (diplóma) og sjávar- og vatnalíffræði (MS). Nám í fiskeldisfræði er kennt í fjarnámi.
Háskólinn á Hólum er staðsettur á sögufrægum og fögrum stað í Hjaltadal í Skagafirði. Þar er góð aðstaða til búsetu og náms. Á Hólum eru nýir stúdentagarðar með glæsilegum íbúðum af ýmsum stærðum. Á Hólum búa um 200 manns og er grunnskóli og leikskóli í göngufæri. Fjölskyldur ættu því að geta fundið sig á staðnum og er kjörið að nýta þetta tækifæri til náms.
Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu skólans: www.holar.is